Laugardagur 01. 08. 15
Það tók 20 mínútur og kostaði 1,50 evrur að fara með strætó frá Beaulieu-sur-mer til Monte Carlo í Mónakó, jafnlangt og frá þessum litla strandbæ til Nice, sami vagninn nr. 100 tengir bæinn annars vegar við smáríkið og hins vegar fimmtu stærstu borg Frakklands á eftir París, Lyon, Marseille og Toulouse.
Eftir rúma þrjá tíma á göngu um Mónakó höfðum við skoðað þær byggingar sem vöktu áhuga okkar og tókum þá troðfullan vagninn til baka.
Nú hef ég heimsótt smáríkin þrjú Andorra, Mónakó og San Marínó í Evrópu sem nota auk Vatíkansins öll evru sem lögeyri án þess að vera í ESB.
Ríkin þrjú eiga öll tilveru sína undir sérstakri löggjöf em auðveldar fjármálamönnum að halda í eignir sínar með því að eiga viðskipti innan þeirra. Ef marka má ríkidæmi eftir glæsilegum bílum eða snekkjum er greinilega mikinn auð að finna í Mónakó.
Furstahöllinn minnti helst á hús í Disney-landi. Við gangbraut skammt fyrir neðan hana er nýleg stytta af Rainer fursta sem lést árið 2005.