29.3.2015 18:30

Sunnudagur 29. 03. 15

Í franska sjónvarpinu eru nú birt úrslit í kosningum til sýslustjórna í landinu – kosið er alls staðar utan stórborganna París og Lyon. Um er að ræða 101 sýslustjórn. Fyrir kosningarnar höfðu vinstri flokkarnir meirihluta í 60 en hægri menn í 41. Fyrstu útgönguspár benda til þess að umskipti verði: hægri menn fái meirihluta 64 til 70 sýslustjórnum, vinstri menn í 30 til 37 og Þjóðfylking Marine Le Pen fær kannski meirihluta í einni sýslustjórn.

Sveiflurnar í frönskum stjórnmálum eru miklar. Manuel Valls forsætisráðherra ávarpaði þjóðina eftir að fyrstu útgönguspár birtust, honum þótti miður að sundraðir vinstri menn hefðu orðið fyrir áfalli í kosningunum en fagnaði sigri „lýðveldisaflanna“ í frönskum stjórnmálum það er flokkanna sem standa vörð um lýðveldið Frakkland gegn öfgaöflum á borð við þau sem birtist í framboði Þjóðfylkingarinnar.

Nicolas Sarkozy, fyrrv. forseti og leiðtogi UMP-miðhægri flokksins, er sigri hrósandi vegna úrslitanna og telur þau styrkja stöðu sína sem forsetaframbjóðandi árið 2017.

Þessar kosningar í Frakklandi kunna að hafa haft áhrif á viðbrögð framkvæmdastjórnar ESB við bréfi Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra frá 12. mars þegar hann lýsti Ísland ekki lengur ESB-umsóknarríki. Ráðamenn ESB í Brussel lögðu sig fram um að gera sem minnst úr bréfinu af ótta við að fréttir um það kynnu að ýta undir fylgi þeirra í Frakklandi og annars staðar sem vilja minnka ESB-miðstjórnarvaldið.

Næsta skref til að afmá Ísland af umsóknarlista ESB er að forsætisráðherra ræði við forseta leiðtogaráðs ESB, Donald Tusk, og Martin Schulz, forseta ESB-þingsins, og kynni þeim stefnu ríkisstjórnarinnar og leggi á ráðin um farsælt samstarf á grundvelli EES-samningsins.