28.3.2015 17:00

Laugardagur 28. 03. 15

Maður sparkar ekki í vindlausan bolta,“ sagði Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar, á dv.is fimmtudaginn 12. mars þegar hann var spurður um stöðuna í ESB-umsóknarmálum eftir að fréttir bárust af því að þennan sama dag hefði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra afhent ráðamönnum Evrópusambandsins bréf með ósk um að Ísland yrði máð af skrám ESB yfir umsóknarríki. Umsóknin hefði fyrir löngu verið efnislega og pólitískt „stopp og dauð“.

Þeir stjórnmálamenn og flokkar sem hafa barist fyrir aðild Íslands að ESB hafa á vikunum sem síðan eru liðnar viðurkennt réttmæti þessara orða formanns Heimssýnar. Þeir eru hættir að sparka ESB-boltanum og hafa þess í stað kosið að tala um það sem þeir höfnuðu þegar þeir sendu hann af stað, það er að ekki verði rætt meira við ESB nema þjóðin samþykki það í atkvæðagreiðslu.

Sá galli er á tillögu þeirra að enginn veit hvernig þeir ætla að fá fulltrúa ESB til að ræða við sig eða aðra án þess að fyrst verði slegið af kröfum Íslands svo að þær falli að sjávarútvegsstefnu ESB. Þá verða þeir að búa þannig um hnúta að umsóknin brjóti ekki í bága við stjórnarskrána.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur barðist á tvennum vígstöðvum samtímis: (1) fyrir nýrri stjórnarskrá, (2) fyrir aðild að ESB. Hvoru tveggja klúðraðist. Stjórnmálamenn sem ætla að fara inn á þessa braut að nýju verða að leggja fyrir tillögur um hvernig þeir ætla að komast yfir hindranirnar sem urðu ríkisstjórn Jóhönnu að falli í þessum málum. Engar tillögur hafa verið kynntar um það.

Hinn vindlausi ESB-bolti liggur á leikvelli stjórnmálanna og enginn býr sig undir að blása lofti í hann að nýju. Frá Brussel berast fréttir um að þar sé mönnum sama þótt boltinn liggi þarna til háðungar þeim sem létu allt fram í janúar 2013 eins og bæði lið léku leikinn af miklum krafti. Á meðan Brusselmenn láta undir höfuð leggjast að verða við ósk utanríkisráðherra Íslands sanna þeir aðeins að ekkert er að marka orð þeirra um að Íslendingar ráði sjálfir stöðu sinni gagnvart ESB.