26.3.2015 18:40

Fimmtudagur 26. o3. 15

Samtal mitt við Guðrúnu Nordal, forstöðumann Stofnunar Árna Magnússonar, á ÍNN miðvikudaginn 25. mars er komið á netið og má sjá það hér. Viðtalið tók ég í tilefni af framboði Guðrúnar til rektors Háskóla Íslands.

Ekki tók nema rétt rúma tvo sólarhringa að upplýsa að flugmaðurinn um borð í Germanwings Airbus-vélinni frá Bareclona til Düsseldorf að morgni þriðjudags 24. mars lokaði flugstjórnarklefanum fyrir flugstjóranum sem skrapp á salerni um 20 mínútum eftir flugtak.  Við svo búið flaug Andreas L. flugmaður vélinni með 150 manns um borð á um 700 km hraða á fjallshrygg í frönsku Ölpunum, tiltölulega skammt fyrir ofan Nice. Saksóknari í Marseille telur að Andreas L. hafi gert þetta með þeim ásetningi að stytta sér aldur. Í Frankfurter Allgemeine Zeitung eru nefnd sex dæmi frá 1976 þar sem talið að flugmenn hafi vísvitandi svipt sjálfa sig og aðra lífi með þessari aðferð.

Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði réttilega á blaðamannafundi síðdegis að þessi atburður væri þess eðlis að enginn hefði getað ímyndað sér að hann yrði. Hún hét því að þýsk yfirvöld mundu gera allt í þeirra valdi til að kanna hvað leitt hefði flugmanninn til þessa voðaverks, enginn áttaði sig á ástæðunni og því væri svo mikilvægt að rannsaka hvert einasta atriði málsins til hlítar.