23.3.2015 18:40

Mánudagur 23. 03. 15

Sighvatur Björgvinsson var formaður Alþýðuflokksins og einn af guðfeðrum Samfylkingarinnar. Hann segir í grein í Morgunblaðinu í dag í tilefni af formannskjörinu í Samfylkingunni föstudaginn 20. mars:

Í allri hinni hörmulegu átakasögu íslenskra jafnaðarmanna eru engin fordæmi fyrir slíku að finna. Engin fordæmi fyrir því, að til átaka sé efnt um forystu flokks án þess að forsaga hafi verið að slíku, án þess að tiltekin hafi verið nokkur minnstu átaka- eða deiluefni, án þess að finnanlegt sé nokkurt tilefni til þess í samskiptum forystumanna heldur þvert á móti sé leitað heimilda í þingræðum þingmanna eða frá fundum í flokknum. Þar kveður allt við hinn sama og eina tón. Engin átök vegna ágreinings. Bara átök vegna – hvers?“

Þessi hörmungarsaga er mér og mínum sorgarsaga. Þó leitað hefði verið með logandi ljósi hefði ekkert það getað fundist, sem eyðilagt gæti jafn mikið fyrir hreyfingu íslenskra jafnaðarmanna og það, sem þarna fannst. Engin dæmi eru slíks tilræðis í allri átakasögunni. Engum úr hópi einörðustu andstæðinga hreyfingar jafnaðarmanna gæti hafa tekist annað eins. Þó er þarna síður en svo um andstæðinga að ræða. Ekki svo séð verði. Heldur þvert á móti. Þess vegna er verkið svo illt, sem unnið var.“

Grein Sighvats Björgvinssonar vekur spurningu um hvort allt hafi í raun komið fram um það sem breytti Samfylkingunni í flakandi sár vegna innbyrðis átaka á æðstu stöðum. Getur verið að Sigríður Ingibjörg hafi aðeins boðið sig fram valdanna vegna? Fyrir henni hafi aðeins vakað að ýta Árna Páli úr sessi?

Sighvatur segir lýsir framboðsræðu Sigríðar Ingibjargar á landsfundinum með þessum orðum: Bara almennt hjal út og suður, illa flutt og enn verr fram sett.“ Er nokkur furða þótt hann og fleiri séu undrandi? Skrýtnast er þó að ekki skuli hafa munað nema einu atkvæði á þeim sem stóð svo lúalega og illa að þessu „tilræði“ og sitjandi formanni, Árna Páli Árnasyni, þegar upp var staðið.

Á meðan ekki er upplýst hvað raun býr að baki þessum ósköpum öllum grær ekki um heilt innan Samfylkingarinnar og vegur flokksins heldur áfram að minnka.