20.3.2015 20:40

Föstudagur 20. 03. 15

Það var stórbrotið að sjá sólmyrkvan í morgun. Nemendur í Hlíðaskóla gengu fylktu liði upp Háuhlíðina og að vatnstanknum á hlíðinni hér fyrir ofan til að sjá náttúrundrið sem best. Mikill fjöldi bíla var við Perluna og þar stóð fjöldi fólks á svölunum. Sólin blasti við á heiðskírum himni í austri. Ég notaði filmur til að sjá tunglið færast fyrir framan sólu án þessa blindast af sólu.

Aldrei hefur flokksformaður komið eins laskaður frá landsfundi og Árni Páll Árnason en í dag sigraði hann Sig­ríði Ingi­björgu Inga­dótt­ur í for­manns­kjöri Sam­fylk­ing­ar­inn­ar á lands­fundi flokks­ins með aðeins einu atkvæði. Árni Páll hlaut 49,49 at­kvæða eða 241 at­kvæði en Sig­ríður Ingi­björg 49,28% og 240 at­kvæði.  

Sig­ríður Ingi­björg til­kynnti for­manns­fram­boð sitt klukkan 17.00 í gær af því að henni blöskraði slök staða Samfylkingarinnar. Verður ekki annað sagt en hún hafi skynjað magnaða óánægju meðal flokksmanna með forystu Árna Páls – má segja að tilviljun hafi ráðið hvort þeirra sigraði.

Það er ekki auðvelt fyrir Árna Pál að sameina flokkinn eftir þessa útreið. Rætt var við Sigríði Ingibjörgu á vefsíðunni kvennabladid.is fimmtudagskvöldið 19. mars og þar stóð:

„Það er augljóst að Samfylkingin hefur verið í ákveðnum vandræðum undanfarin ár og tapaði stórt í síðustu kosningum. Hvar ætlar þú að byrja?

Við höfum ekki tíma til að leggjast í naflaskoðun en við megum ekki hætta að gagnrýna sjálf okkur heldur. Fyrst og fremst þurfa allir að standa saman og verja fólkið í landinu fyrir ríkisstjórninni. Ef okkur tekst að gera gagn verður miklu auðveldara að leysa innanbúðarmál Samfylkingarinnar.“

Líklegt er að nú verði Samfylkingin að leggjast í naflaskoðun. Við þær aðstæður sem sköpuðust við framboð Sigríðar Ingibjargar hefði mátt búast við að hún fengi allt að 30% fylgi eins og óánægjuframboð fá gjarnan – eins konar Pírata-fylgi. Hið mikla fylgi sem hún fékk lamar í raun Samfylkinguna – hún er forystulaus þótt hún hafi kjörið sér formann.