19.3.2015 19:00

Fimmtudagur 19. 03. 15

Samtal mitt við Jón Atla Benediktsson, aðstoðarrektor Háskóla Íslands, á ÍNN er komið á netið og má sjá það hér.

Nú er rifjað upp að hér varð sólmyrkvi 30. júní árið 1954 þegar ég var níu ára og minnist ég þess að horft var á hann í gegnum spólur fyrir diktafón sem faðir minn notaði. Þetta voru fjólubláar himnur sem voru settar í fóninn og rispuðust þær þegar tekið var upp hljóð. Með því að raða saman nógu mörgum spólum mátti skapa vörn fyrir augun.

Nú verður sólmyrkvi að nýju á morgun. Fyrirhyggjuleysi leiddi til þess að ég nálgaðist ekki sólmyrkvagleraugu áður en þau seldust upp. Raunar er í blöðum í útlöndum sagt að þessi gleraugu séu uppseld hvarvetna nema kannski á fábýlum stöðum í Evrópu. Bent er á að nota megi filmu með því að raða nokkrum saman og liggur beint við að nota það ráð.

Á einni viku hefur hamagangurinn vegna bréfs Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra gengið yfir hér á landi. Umræðurnar hafa verið gagnlegar. Stjórnarandstaðan hljóp á sig í oftúlkunum á valdi alþingis gagnvart utanríkisráðherra. Björg Thorarensen, prófessor í stjórnlagafræði við Háskóla Íslands, sagði í ríkisútvarpinu í dag að það hefði mátt sækja um aðild að ESB án þess að fyrir lægi sérstök samþykkt alþingis um það. Þeim mun frekar er utanríkisráðherra heimilt að afturkalla umsókn sem ekki hefur leitt til neins nema kostnaðar og deilna ef ekki upphlaupa.

Hið fráleita kvörtunarbréf stjórnarandstöðunnar til Martins Schulz, forseta ESB-þingsins, sem reist er á beinum rangtúlkunum hefur ef til vill orðið til að rugla ESB-menn í ríminu, að minnsta kosti hafa þeir orðið sér til skammar með viðbrögðunum við bréfi utanríkisráðherra. Brussel-viðbrögðin sanna svo ekki verður um villst hve miklu skiptir að losna undan umsóknarstimplinum í bókum ESB.

Ríkisstjórnin hlýtur að beita öllum ráðum til að ESB standi við þau orð að það sé afstaða íslensku ríkisstjórnarinnar sem ráði stöðu Íslands gagnvart ESB en ekki túlkun embættismanna í Brussel.