16.3.2015 19:30

Mánudagur 16. 03. 15

Stjórnarandstæðingar fóru halloka í þingumræðum í dag um bréf utanríkisráðherra til Evrópusambandsins. Við blasir að rök þeirra eru haldlaus. Núverandi ríkisstjórn fylgir ekki ESB-stefnu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og stuðningsmanna hennar. Í stjórnarsáttmálanum frá maí 2013 segir:

„Gert verður hlé á aðildarviðræðunum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Yfirlýsingar um að í þessum orðum fælust loforðasvik við kjósendur urðu fyrst háværar þegar úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands var lögð fram á þingi fyrir um það bil ári. Þegar utanríkisráðherra vildi framkvæma stjórnarstefnuna og lagði fram tillögu um afturköllun umsóknarinnar umturnaðist stjórnarandstaðan og beitti öllum ráðum til að stöðva framgang málsins. Hafi eitthvað óþingræðislegt gerst í þessu máli birtist það í orðum og gjörðum stjórnarandstöðunnar. Hún vill ekki að vilji meirihluta alþingis nái fram að ganga.

Ríkisstjórnin féll ekki frá stefnu sinni heldur boðaði þingheimi í haust að málið yrði að nýju tekið fyrir. Gerðu flestir ráð fyrir að ný tillaga yrði lögð fyrir þingið. Össur Skarphéðinsson, fyrrv. umsóknarráðherra, sagði að tillögunni yrði mætt með „eldi og brennisteini“ og Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, hafði uppi sambærilegar hótanir.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði á alþingi í dag að vissulega hefði verið boðað „að hugsanlega kæmi fram tillaga“  frá utanríkisráherra um stöðuna gagnvart ESB. Það hefði hins vegar orðið niðurstaða  „í samskiptum við Evrópusambandið á síðustu vikum … að ljúka þessu á sem jákvæðastan hátt gagnvart Evrópusambandinu, ef svo má segja, gera þetta í góðu. Það eina sem vantaði var að ríkisstjórnin gerði grein fyrir afstöðu sinni til málsins, hvort hún vildi taka upp stefnu síðustu ríkisstjórnar og halda áfram þar sem frá var horfið í þessu umsóknarferli eða ekki“.

Þessi orð forsætisráðherra verða ekki skilin á annan hátt en þann að í Brussel hafi mönnum blöskrað svo framganga stjórnarandstöðunnar fyrir ári að þeir vildu ekki að ESB yrði að sama bitbeini nú og þá og því hafi orðið samkomulag um þessa leið til að árétta að Ísland sé ekki umsóknarríki.