12.3.2015 20:30

Fimmtudagur 12. 03. 15

Þá hefur ESB verið formlega tilkynnt að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki. Gunnar Bragi Sveinsson afhenti formanni ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjóra aðildarviðræðna bréf um þetta á fundi í dag, tilkynningu utanríkisráðuneytisins og bréf utanríkisráðherra má sjá hér. Bréf utanríkisráðherra felur í sér þjóðréttarlegan gjörning gagnvart ESB en jafnan hefur verið sagt af þess hálfu að það taki mið af óskum íslenskra stjórnvalda í málinu. Ísland er því ekki lengur ESB-umsóknarríki.

Ég hef verið talsmaður þess að íslenska ríkisstjórnin tæki einhliða af skarið í þessa veru í ljósi framvindu mála allt frá árinu 2011 þegar ESB neitaði að afhenda rýniskýrslu sína um sjávarútvegsmál. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur reyndi árangurslaust að fá ESB til að afhenda þessa skýrslu. Í janúar 2013 kynnti síðan Össur Skarphéðinsson umsóknarráðherra þá niðurstöðu að gera ætti hlé á viðræðunum. Þær hafa síðan legið í láginni, viðræðunefndir hafa verið afmunstraðar og ný framkvæmdastjórn ESB tilkynnti árið 2014 að ekki yrði unnið að frekari stækkun ESB fyrr en í fyrsta lagi eftir 2019.

Það er aðeins til marks um málefnafátækt stjórnarandstöðunnar ætli hún að taka öll mál ríkisstjórnar á alþingi í gíslingu vegna þessa máls eins og Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, boðaði í Kastljósi kvöldsins. Flokkarnir sem töpuðu síðustu kosningum vegna ESB-málsins ætla að setja málið í fyrirrúm þegar málið er dautt. Það er rétt sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í Kastljósinu að það er enginn munur á dauðu eða steindauðu máli. Hann minnti einnig á að þingsályktunartillagan um umsóknina í júlí 2009 var flutt með þeim áskilnaði flutningsmanna að hvenær sem er gætu þeir hlaupið frá henni. Nú er látið eins þessi illa ígrundaða tillaga sé ígildi lögbindingar ef ekki stjórnarskrár.

Vilji stjórnarandstaðan ná sér niðri á ríkisstjórninni vegna þessa máls er eðlilegt að hún geri það með tillögu um vantraust. Það er fyrsti dómur sem unnt er að fella yfir stjórninnj eða einstökum ráðherrum vegna þess sem gerst hefur í dag. Kjósendur fella sinn dóm í kosningum.

Gleðileg þáttaskil hafa orðið í ESB-málinu.