11.3.2015 19:30

Miðvikudagur 11. 03. 15

Í þætti mínum á ÍNN í dag ræði ég við Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, aðstoðarlögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, sem vinnur meðal annars að því að innleiða nýjar aðferðir til að takast á við heimilisofbeldi. Þátturinn er sýndur klukkan 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Hér má sjá samtal okkar Jakobs F. Ásgeirssonar, ritstjóra Þjóðmála, sem fór í loftið miðvikudaginn 4. mars er en er nú kominn á netið á vefslóðinni inntv.is. Þar má skoða efni stöðvarinnar marga mánuði aftur í tímann fyrir þá sem hafa áhuga á því.

Leiðari Morgunblaðsins í gær um hlustun á ríkisútvarpið dregur upp skýrari mynd af stöðu þess en lesa mátti úr harmkvælum þeirra sem létu við afgreiðslu fjárlaga ársins 2015 eins og íslensk menning væri í húfi yrði minna fé lagt til hins opinbera hlutafélags. Í nýjasta hefti Þjóðmála er brugðið ljósi á þessar umræður um ríkisútvarpið og rangfærslur þeirra sem veittust að meirihluta alþingis með árásum um að hann ætlaði að ganga að ríkisútvarpinu dauðu. Miðað við tölurnar í fyrrnefndum leiðara er útvarpið að deyja vegna þess hve fáir hlusta á það. Í leiðaranum segir:

„Þá er eftirtektarvert hve Bylgjan hefur sett Ríkisútvarpið, með allt sitt fé og mannafla, aftur fyrir sig með afgerandi hætti. Jafnvel þegar Ríkisútvarpið skellir tveimur rásum sínum saman hefur það ekki roð við Bylgjunni, ef hádegisfréttir eru taldar frá. Hlustun á þann fréttatíma er þó minni en ætla mætti, ef miðað er við það sem áður var. (Síðasta lag fyrir fréttir er nánast horfið úr hlustun ef marka má graf sem fylgdi.) […]

Væri ekki eðlilegra að hið opinbera semdi við Bylgjuna um þetta öryggishlutverk? Hún mun vera rekin fyrir mun minna fé en keppinauturinn en skákar honum um hlustun. Ekki er hægt að treysta á að atburðir sem kalla á öryggisstofnunina ómissandi gerist á þessu korteri (12:15-12:30) þar sem hlustun á „RÚV“ er enn mest, en þó aðeins 12%.“