10.3.2015 20:30

Þriðjudagur 10. 03. 15

Í frétt á mbl.is segir síðdegis í dag:

„Mikið hef­ur verið að gera hjá björg­un­ar­sveit­um Slysa­varna­fé­lags­ins Lands­bjarg­ar í dag vegna ófærðar víða um land. Um 250 björg­un­ar­sveita­menn taka nú þátt í ófærðaraðstoð.

Sam­kvæmt til­kynn­ingu frá Lands­björgu er ástandið einna verst fyr­ir aust­an fjall og í upp­sveit­um Árnes­sýslu. Á Hell­is­heiði, í Þrengsl­um og á Lyng­dals­heiði hef­ur fjöldi bif­reiða setið fast­ur eða verið ekið út af vegi. Á leið til og frá Gull­fossi, Geysi og á Þing­völl­um  er t.a.m. gríðarleg­ur fjöldi bíla og rúta fast­ur og telja stjórn­end­ur aðgerða að þeir séu a.m.k. vel á annað hundraðið. Vel hef­ur gengið að aðstoða ferðafólkið.“

Ég átti leið um Lækjartorg um 10.30 í morgun og sá þá fjölda ferðamanna ganga til langferðabifreiða og stóð meðal annars á þeim Golden Circle það er Gullni hringurinn, ferð um Þingvelli að Geysi og Gullfossi.

Mig undraði að sjá að þessar ferðir væru til sölu þrátt fyrir veðurspána en ákvað að halda mér hlés enda ekki kunnáttumaður.

Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, ritaði grein í The Guardían í dag þar sem hann varaði Breta við að segja skilið við Evrópusambandið, gerðu þeir það hlytu þeir sambærileg örlög og Norður-Kóreumenn, þeir yrðu áhrifa- og vinalausir. Á Evrópuvaktinni má lesa frétt um greinina. 

Þegar ég las þetta minnti það mig á spá Gylfa Magnússonar, þáv. viðskiptaráðherra, frá 26. júní 2009 um að Ísland mundi einangrast á alþjóðavísu og verða Kúba norðursins ef ekki yrði fallist á Icesave-samkomulagið sem síðar var fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Allir vita hvernig spá Gylfa hefur ræst. Líklegt er að Gordon Brown sé álíka forspár og Gylfi. Íslenski viðskiptaráðherrann vildi á sínum tíma að íslenskir skattgreiðendur létu undan kröfum Browns og tækju að sér að greiða skuldir óreiðumanna.