7.3.2015 19:15

Laugardagur  07. 03. 15

Eitt helsta einkenni á stíl Dags B. Eggertssonar við stjórn Reykjavíkurborgar er að vísa verkefnum sem snerta hagsmuni borgarbúa beint frá sér til annarra.

Þegar allt var augljóslega í óefni í ferðamálum fatlaðra fól Dagur B. neyðarstjórn að fjalla um málið. Hún hefur nú skilað skýrslu með þeim áfellisdómi að illa hafi verið búið um hnúta við breytingar á flutningareglum fyrir fatlaða. Einstakt tilvik er rakið og þar kemur einnig í ljós að starfsfólk hefur verið sent á vettvang án þess að hafa hlotið nauðsynlega þjálfun til að sinna þeim verkefnum sem þeim voru falin. Allt skrifast þetta á ábyrgð yfirstjórnar borgarinnar og þar er Dagur B. efst á pýramídanum.

Þegar forseti Íslands sendi frá sér frétt um að Sádi-Arabar ætluðu að gefa milljón dollara til mosku í Reykjavík kom Dagur B. af fjöllum en vísaði málinu til mannréttindaráðs! Já, mannréttindaráðs. Þar situr fulltrúi VG í formennsku og segist í Morgunblaðinu ætla að gefa Degi B. ráð sem reist sé að því að hún treysti dómgreind múhameðstrúarmanna. Það er einkennileg ráðgjöf  þegar dómgreind múhameðstrúarmanna er ekki meiri en svo að þeir vita ekki hvort þetta er sama milljónin og afhent var öðrum hópi þeirra fyrir jólin en þeim sem ætlar að reisa moskuna eða hvort þetta er ný milljón frá Sádi-Aröbum. Hvort hafa þeir gefið eina eða tvær milljónir dollara til Íslands á síðustu þremur mánuðum?

Þetta hlýtur að verða upplýst fyrir Dag B. Hvað hann gerir við upplýsingarnar er óljóst en það hefur mátt skilja hann á þann veg að hann sé ekki hlynntur gjöfum frá Sádi-Arabíu til byggingarinnar. Sádi-Arabar leggja áherslu á að kaupa múslíma til stuðnings við súnníta innan íslam til að stemma stigu við útbreiðslu shíta.

Einu máli vísaði Dagur B. þó ekki til nefndar. Eftir að norska jólatréð fauk á Austurvelli nú fyrir jólin voru góð ráð dýr. Dagur B. dó ekki ráðalaus, hann klæddi sig upp, hélt í Heiðmörk og hjó þar jólatré undir ljósum myndavéla.