5.3.2015 17:00

Fimmtudagur 05. 03. 15

Forvitnilegt er að fylgjast með því hvernig fjölmiðlar fjalla um úrskurð Persónuverndar vegna sendingar á gögnum frá lögregluembættinu á Suðurnesjum til innanríkisráðuneytisins frá 20. nóvember 2013.

Í dag taka þeir kipp á Kjarnanum, Stundinni og kannski víðar vegna viðtals sem birtist við Sigríði Björk Guðjónsdóttur í Morgunblaðinu og eru greinilega mjög öfundsjúkir vegna þess að hún hafi rætt við Agnesi Bragadóttur en ekki þá. Við svo búið grípur Kjarninn til þess ráðs að segja Sigríði Björk fara með ósannindi af því að í samtalinu segir hún að við rannsókn lekamálsins hafi lögregla rannsakað „öll samskipti aðstoðarmanna og tölvupóstsendingar“ og allar upplýsingar um hennar samskipti hafi legið þar fyrir.

Ræðir Kjarninn við Helga Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknara sem segir að lögregla hafi ekki vitað um tölvupóstinn, pósthólf Sigríðar hafi ekki verið rannsakað og honum sé ekki kunnugt um að merki um þessa póstsendingu hafi fundist í pósthólfi Gísla Freys og var hún ekki hluti af málsgögnum“. Ákæruvaldið hafi fyrst fengið upplýsingar um að greinargerðin hefði verið send þegar Sigríður greindi frá því í fjölmiðlum eftir að umfjöllun um símasamskipti hennar við Gísla Frey komu til umræðu eftir að dómur gekk.

Það er sérkennileg blaðamennska hjá Kjarnanum og síðan einnig Stundinni og Vísi að leggja þannig út af þessu að Sigríður Björk segi ósatt. Athyglin ætti frekar að beinast að því hvernig staðið var að rannsókn málsins. Eins og kunnugt er stóð hún lengi og gekk lögregla fram af mikilli festu. Málinu lauk með játningu Gísla Freys án þess að reyndi á rannsóknargögn fyrir dómi.

Við blasir að frásögn og ályktanir Kjarnans eru jafnlitaðar og annað sem vefblaðið hefur haft fram að færa þegar Sigríður Björk á í hlut. Hefur blaðið grafið markvisst undan eigin trúverðugleika vegna mats blaðamanna á því sem fram hefur komið og snertir Sigríði Björk Guðjónsdóttur.

Hér hefur verið vakið máls á gamalgrónum tengslum Þórðar Sveinssonar, lögfræðings hjá Persónuvernd, og Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans. Svo virðist sem Kjarninn hafi ljósmyndað úrskurð Persónuverndar jafnskjótt og hann var kynntur málsaðilum en tveimur dögum áður en hann birtist á netinu.