29.9.2014 19:10

Mánudagur 29. 09. 14

Látinn er í Danmörku 92 ára að aldri Erik Ninn-Hansen. Hann sat 41 ár á danska þinginu fyrir Íhaldsflokkinn og var meðal áhrifamestu stjórnmálamanna Danmerkur.  Hans verður minnst í danskri stjórnmála- og réttarsögu vegna Tamíla-málsins. Það leiddi til falls ríkisstjórnar  Pouls Schlüters árið 1993 og valdatöku jafnaðarmanna undir formennsku Pouls Nyrups Rasmussens. Vegna málsins var danski Rigsretten – landsdómur – einnig kallaður saman í fyrsta sinn frá 1910.

Erik Ninn-Hansen var dómsmálaráðherra þegar flóttamenn frá Asíu, tamílar, máttu sæta því að umsóknir þeirra um dvalarleyfi í Danmöku vegna fjölskyldusameiningar voru saltaðar í dómsmálaráðuneytinu. Ninn-Hansen sagðist saklaus og með hreina samvisku vegna málsins.

Rigsretten komst að annarri niðurstöðu í júní 1995 og ráðherrann fyrrverandi var dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi. Hann var settur út af sakramentinu og varð að skila Dannebrogsporðunni til konungshallarinnar.

Í minningarorðum í Jyllands-Posten segir að gamlir samstarfsmenn hans og flokksfélagar hafi snúið við honum baki. Hann einangraðist og missti heilsuna.

Hann var fyrst kjörinn á þing árið 1953 og þótti harður í horn að taka. Hans er meðal annars minnst fyrir framgöngu sína eftir að Grænlandsfarið Hans Hedtoft fórst árið 1959. Þá krafðist hann þess að Johs. Kjærbøl ráðherra yrði stefnt fyrir Rigsretten vegna þess að hann hefði haft að engu viðvaranir kunnáttumanna um hættuna í vetrarsiglingum við Grænland.  Vegna þessa máls barðist af hörku fyrir setningu laga um ráðherraábyrgð og voru þau samþykkt árið 1964.

Erik Ninn-Hansen vildi leggja stein í götu þess að handritin yrðu afhent Íslendingum og skrifaði meðal annars grein í Berlingske Tidende 12. nóvember 1964 þar sem hann hvatti til að efnt yrði um þjóðaratkvæðagreiðslu í Danmörku til að kanna hug þjóðarinnar til afhendingar handritanna.