27.9.2014 18:20

Laugardagur 27. 09. 14

Í dag var verkefnið Bókabæirnir austanfjalls kynnt á velsóttum fundi í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands var meðal ræðumanna og einnig Richard Booth sem skipaði sjálfan sig konung yfir bókabænum sem hann stofnaði í Hay-On-Wye i Wales 1977. Þetta er bókabær á stærð við Hveragerði með 24 bókabúðir og 30 gististaði. Nú eru 14 bókabæir í heiminum í þremur heimsálfum.

Þetta er spennandi verkefni og verður forvitnilegt að sjá hvernig það þróast hér á landi. Í upphafi taka Hveragerði, Selfoss, Stokkseyri, Eyrarbakki og Þorlákshöfn þátt í samstarfi undir merki bókabæjanna austanfjalls. Í kynningarbæklingi segir: „Bókabæirnir austanfjalls munu breyta ímynd svæðisins og gera það eftirsóknarvert til búsetu og starfa."

Talið er að nú heimsæki um 500.000 ferðamenn á ári Hay-On-Way vegna frægðar bæjarins sem bókabæjar. Árið 1988 kom Hay Literary Festival til sögunnar

Á einni og sömu bókmenntahátíðinni í Hay hafa meðal annars verið rithöfundarnir: Martin Amis, Jung Chang, Louis de Bernières, Mark Haddon, Mario Vargas Llosa, Hilary Mantel, Ian McEwan, Michael Morpurgo, Ben Okri, Ian Rankin, Salman Rushdie, Owen Sheers, Jeanette Winterson; stjórnmálamennirnir: Peter Hain og  Boris Johnson og ræðumenn: Harry Belafonte, William Dalrymple, Stephen Fry, A.C. Grayling, Germaine Greer, Michael Ignatieff og  David Starkey.

Nú er efnt til bókmenntahátíða undir hatti skipuleggjendenna í Hay víða um lönd og má til dæmis fræðast um þetta allt á bloggsíðunni http://blog.hayfestival.org/ Þar má meðal annars sjá að Yrsa Sigurðardóttir var í annað sinn í Hay í lok maí á þessu ári. Hún segir í bloggi sínu:

„Hay is unlike any place, anywhere. The atmosphere is unique and the programming incredibly diverse and of a very high standard. There can't be anyone who is unable to find something to interest him or her.“