26.9.2014 21:55

Föstudagur 26. 09. 14

Hreinsanir halda áfram á 365 miðlum. Enn er yfirlýst markmið þeirra að auka sjálfstæði ritstjórnarinnar gagnvart eigendum miðlanna en Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, fyrrv. forstjóra Baugs, er stjórnarformaður þeirra og megineigandi. Markmiðið er einnig að auka hlut kvenna við stjórn miðlanna.

Á ruv.is segir í dag að Breka Logasyni, fréttastjóra Stöðvar 2,  hafi verið sagt upp störfum í dag. Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri og útgáfustjóri 365 miðla, er sögð hafa boðið Breka stöðu almenns fréttamanns.

Uppsögn Breka tók þegar gildi og var ástæðan sögð skipulagsbreytingar innan 365 miðla en leggja eigi starf fréttastjóra fréttastofu Stöðvar 2 niður.  Ellý Ármanns, ristjóra Lífsins á Vísi, var einnig sagt upp störfum hjá 365. Hún lætur af störfum 1. október. Hún hefur starfað í 9 ár á Vísi, það er visir.is.

Umskipti hafa orðið í lykilstöðum á ritstjórn 365 miðla undanfarið. Leiðurum Fréttablaðsins hefur hrakað eftir að Ólafi Þ. Stephensen var vikið úr stöðu ritstjóra og Mikael Torfasyni úr stöðu aðalritstjóra.

Á sínum tíma ritaði Sigurjón Magnús Egilsson, nýskipaður fréttaritstjóri Fréttablaðsins, fjölmarga leiðara í blöð til stuðnings Baugsmönnum og tók upp hanskann fyrir þá á tíma Baugsmálsins. Þótt margt hafi breyst síðan hafa efnistök hans í leiðurum ekki breyst, vita eigendur 365 miðla því að hverju þeir ganga með ráðningu Sigurjóns Magnúsar. Kristín Þorsteinsdóttir skrifar ekki leiðara. Friðrikka Benónýsdóttir hefur hins vegar gert það þótt sagt sé að hún hafi ákveðið að segja skilið við 365 miðla.

Fanney Birna Jónsdóttir, ritstjóri viðskipta hjá 365 miðlum, er meðal leiðarahöfunda Fréttablaðsins. Mörgum blöskraði það sem hún skrifaði mánudaginn 15. september þar á meðal Agli Helgasyni álitsgjafa sem sagði:

„Hvernig tekst leiðarahöfundi Fréttablaðsins, sem er Fanney Birna Jónsdóttir, lögfræðimenntuð kona, að ná að tengja annars vegar allsendis ósannaðar ásakanir á hendur sérstökum saksóknara – bornar fram af manni sem á harma að hefna gagnvart embættinu og – jú, Geirfinns- og Guðmundarmál? […]

Þetta er vægast sagt ósmekklegt og eykur ekki tiltrúna á blaðinu þegar nýbúið er að gera stórfelldar breytingar á ritstjórninni – að því er virðist til að beygja hana frekar undir vald eigenda blaðsins.“