2.9.2014 21:10

Þriðjudagur 02. 09. 14

Rússneskir þingmenn eru mjög reiðir vegna þess að þeir telja NATO þrengja um of að þjóðinni. Ein af tillögunum sem hefur komið fram til sýna reiði þingsins er að samþykkt verði lög sem banni kennslu á erlendum tungumálum í rússneskum skólum í að minnsta kosti 10 ár! Ætli markmiðið sé að hindra að Rússar eigi samskipti við aðrar þjóðir?

Atli Þór Fanndal, frv. blaðamaður á DV, ræddi við framkvæmdastjóra fjölmiðlanefndar í mennta- og menningarmálaráðuneytinu mánudaginn 1. september. Hann segir á mbl.is þriðjudaginn 2. september:

 „Það seg­ir sig al­gjör­lega sjálft að ég fer ekki til fjöl­miðlanefnd­ar vegna þess að ég haldi að ekk­ert mis­jafnt hafi verið í gangi. Ég tel það skipta höfuðmáli að rit­stjór­inn hafi séð ástæðu til að fela, eða til­kynna ekki sér­stak­lega, hvaðan hann fékk pen­inga.“

Vísar hann þar m.a. til 15 m.kr. láns sem Reynir Traustason, ritstjóri og einn af hluthöfum í DV ehf., fékk að láni hjá Gumundi Kristjánssyni útgerðarmanni. Atli Þór segir:

 „Ég hringdi í Elfu [Ýr Gylfadóttur framkvæmdastjóra] og við átt­um um það bil klukku­tíma fund þar sem við fór­um yfir gróf­ar lín­ur í mál­inu. Ég óskaði eft­ir því að nefnd­in myndi taka málið fyr­ir. Ég benti auk þess á það að í nefnd­inni sæti faðir Inga Freys Vil­hjálms­son­ar, frétta­stjóra á DV, og að það þætti mér ekki eðli­legt við úr­vinnslu þessa máls. Ég get að öðru leyti ekki farið mikið út í það í smá­atriðum hvað fór okk­ur Elfu á milli. Niðurstaðan er þó sú að í morg­un fékk ég bréf þar sem ég var beðinn um að skila inn skrif­legu er­indi og segja þá nefnd­inni hvort það er­indi væri op­in­bert eða af­hent í trúnaði. Ég fór ekki til nefnd­ar­inn­ar til að leyna neinu svo að það verður að sjálf­sögðu op­in­bert.

Ég treysti fjöl­miðlanefnd ekk­ert sér­stak­lega. Mér þykir hún ekki hafa unnið vinn­una sína und­an­far­in ár. Ég leita ein­göngu til nefnd­ar­inn­ar af því að ég lít á það sem borg­ara­lega skyldu mína. Að öðru leyti er ekk­ert sér­stakt traust falið í því að ég leiti til henn­ar.

Það velt­ur svo­lítið á því hversu þröngt falið viðskipta­boð er túlkað hvort nefnd­in geti beitt sér í mál­inu eða ekki. Ég tel það þó al­gjör­lega ljóst að nefnd­in get­ur og ber skylda til að beita sér í því að haldið sé utan um eign­ar­hald á fjöl­miðlum. Eign­ar­hald á fjöl­miðlum er ekki rétt skráð á Íslandi og það á sér­stak­lega við um DV. Ég hef enga ástæðu til að treysta nýj­um eig­end­um, sem komið hef­ur í ljós að eru í raun bún­ir að vera eig­end­ur mjög lengi, né gömlu eig­end­un­um.“

Framhaldsaðalfundur DV ehf. er föstudaginn 5. september. Atli Þór ætti að skila fjölmiðlanefnd greinargerð sinni fyrir þann tíma svo að hún liggi fyrir á aðalfundinum.