Sunnudagur 31. 08. 14
Þegar Reynir Traustason var blaðamaður á Fréttablaðinu í ársbyrjun 2003 tók hann að sér að birta brot úr fundargerðum stjórnar Baugs sem áttu að sanna þá kenningu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forkólfs Baugs, að Davíð Oddsson, þáv. forsætisráðherra, hefði snemma árs 2002 ætlað að splundra viðskiptaveldi Jóns Ásgeirs og síðan sigað lögreglunni á Jón Ásgeir. Tilgangur birtingarinnar var tvíþættur: (1) að sanna að Jón Ásgeir væri saklaus en ofsóttur af lögreglu vegna óvildar forsætisráðherra og (2) að leggja Samfylkingunni lið í baráttu hennar gegn Davíð Oddssyni vegna þingkosninga nokkrum vikum eftir birtingu fundargerðarbrotanna.
Ýmsum þótti forvitnilegt að vita hvernig rannsóknarblaðamaðurinn og fréttahaukurinn Reynir Traustson hefði komist yfir þessar fundargerðir eða hver hefði lekið þeim í hann. Reynir var þögull sem gröfin og sagðist standa vörð um heimildarmenn sína í þessu máli sem öðrum.
Síðar fengust svör við öllum spurningum um þetta: Í ljós kom að Jón Ásgeir átti Fréttablaðið en kaus að halda því leyndu. Rannsóknarblaðamaðurinn var ekki annað en handlangari fyrir eiganda blaðsins og lagði sig fram um að rétta hlut hans á kostnað forsætisráðherra.
Nú situr Reynir Traustason undir ámæli fyrir hvernig hann aflaði fjár sem eigandi og ritstjóri DV til að halda blaðinu úti þrátt fyrir stöðugan taprekstur árum saman. Hann segir á Facebook-síðu sinni 31. ágúst:
„Á undanförnum árum hef ég lagt undir allt sem ég gat til að halda DV á floti […] er rétt að taka fram að blaðamenn DV hafa ekki haft hugmynd um persónuleg fjármál mín. Ég hef reyndar talið æskilegt að svo væri ekki.“
Eitt er að blaðamenn DV vissu ekki fyrir hverja þeir unnu frekar en blaðamenn Fréttablaðsins í tæpt ár þegar eignarhaldi Jóns Ásgeirs var haldið leyndu. Annað er að í ljós hefur komið að Reynir hélt fjármálasviptingum sínum einnig leyndum fyrir öðrum eigendum DV ehf.
Þegar einn stjórnarmanna í DV ehf. óskar með yfirlýsingu 31. ágúst á Eyjunni eftir óháðri úttekt á fjárreiðum og rekstri félagsins stígur Jón Trausti Reynisson, sonur ritstjórans og framkvæmdastjóri DV ehf., fram með athugasemd á Eyjunni og segir stjórnarmanninn „grípa til þess ráðs að gera fyrirtækið og starfsmenn þess tortryggilega til að rétta eigin hlut í umræðunni“.
Ljúki þessum dapurlega farsa á þann veg að þeir feðgar stjórni DV ehf. áfram er lágmarkskrafa að þeir upplýsi hver fjármagni þá á framhaldsaðalfundinum föstudaginn 5. september 2014.