29.8.2014 18:30

Föstudagur 29. 08. 14

Ástandið í Úkraínu versnar þegar Rússar færa sig stöðugt meira upp á skaftið. Að láta eins og Kremlverjar eigi einhvern rétt til íhlutunar í austurhluta Úkraínu er fráleitt. Margir undrast langlundargeð Angelu Merkel Þýskalandskanslara í garð Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta. Hún hefur hringt þrisvar í hann í þessum mánuði 15. 22. og 27. ágúst. Hún segist oft ræða við Pútín í síma og vill gera sem minnst úr þessum samtölum en frá símhringingum Merkel er sagt á vefsíðu rússneska forsetaembættisins.

Þau Pútín og Merkel þekkjast vel. Þau eiga auðvelt með að skiptast á skoðunum, hann talar góða þýsku enda gegndi hann stöðu KGB-foringja í Austur-Þýskalandi og Merkel lærði rússnesku þegar hún gekk í skóla í DDR, þýska alþýðulýðveldinu. Blaðamaður Le Monde segir hins vegar að ekki sé kært með þeim. Pútín viti að Merkel sé illa við hunda og einmitt þess vegna hafi hann gjarnan stóra hunda sína við hlið sér þegar þau hittist. Það þjóni þeim eina tilgangi að koma henni úr jafnvægi.

Merkel undrast ekki háttalag Pútíns og hefur sagt:

„Hann endurtekur alltaf setningu sem ég er algjörlega ósammála en lýsir sannfæringu hans […]: að hrun Sovétríkjanna hafi verið mesti harmleikur 20. aldarinnar. […] Þessi setning höfðar alls ekki til okkar.“

Blaðamaður Le Monde veltir fyrir sér hvort Merkel óttist að Pútín vilji endurreisa Sovétríkin, Hún hafi að sjálfsögðu aldrei gefið það til kynna. Þegar hún heimsótti Lettland hinn 18. ágúst flutti hún ræðu og áréttaði að ákvæðið í „5. grein sáttmála NATO um gagnkvæma aðstoð“ kæmi til árásar á eitt aðildarríki NATO væri „ekki aðeins orð á blaði heldur [lýsti] raunverulegum ásetningi“.