Fimmtudagur 28. 08. 14
Nú er upplýst að frá 16. ágúst hefur mikil gliðnun orðið neðanjarðar út frá Bárðarbungu. Segir á vefsíðunni ruv.is í dag að GPS mælar norðvestan við bunguna séu nú um 40 sentimetrum frá þeim stað sem þeir voru áður. Sprungan, eða kvikugangurinn, hafi teygt sig í austur og síðan í norður frá Bárðarbungu í átt að Öskju og sé nú orðin yfir 40 kílómetrar að lengd. Kvikumagnið er um 400 milljón rúmmetrar, sem jafngildir því að allt vatnsmagn Þjórsár eða Ölfusár á einum sólarhring hafi bæst við á hverjum degi.
Veðurstofa Íslands segir að sigdældir suðaustan Bárðarbungu liggi í stefnu suðsuðaustur út frá suðausturhorni Bungunnar. Þær eru um 4,5 km á lengd og um 1 km á breidd. Þær eru um 15-20 m djúpar og markaðar hringsprungum. Lauslega áætlað hafa 30-40 milljónir rúmmetrar íss bráðnað á þessum stað.
Þannig er staðan eftir að jarðhræringarnar hefur borið hæst í fréttum í 12 daga. Um tíma var hættustigið rautt eða „litakóðinn“ eins og það er svo einkennilega orðað í sumum fjölmiðlum. Á því stigi urðu fréttir af gosinu heimsfréttir. Margir óttuðust að truflun yrði á flugi eins og þegar Eyjafjallajökull gaus.
Enginn getur sagt hvort þessari umbrotahrinu sé lokið. Hún sannar aðeins kenninguna um að Ísland er lifandi. Tími án umbrota er í raun aðeins biðtími þar til þau hefjast einhvers staðar að nýju.