26.8.2014 21:10

Þriðjudagur 26. 08. 14

Fjögurra atburða má minnast í dag:

1.      Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisáðherra verður einnig dómsmálaráðherra. Fyrsta skrefið til endurreisnar dómsmálaráðuneytisins.

2.      Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra stígur fram á fjölmiðlavöllinn og svarar spurningum um lekamálið af miklu öryggi í Stöð 2 og Kastljósi. Umboðsmaður alþingis birtir langa útskrift á samtali sínu við Stefán Eiríksson, fráfarandi lögreglustjóra í Reykjavík. Stefán taldi sér bera að skýra frá trúnaðarsamtölum við innanríkisráðherra. Frásögnin birt án þess að gefa Hönnu Birnu tækifæri til andmæla. Í samtölum við fréttamenn leiðréttir hún ranghugmyndir sem vaknað hafa í huga þeirra við lestur bréfs umboðsmanns.

3.      Ólafur Þ. Stephensen segir af sér sem ritstjóri Fréttablaðsins. Hann segir í yfirlýsingu að atburðir undanfarinna daga  á fréttastofu 365 hafi meðal annars orðið til þess að hann geti ekki litið öðruvísi á en að ætlunin sé að þrengja að sjálfstæði hans sem ritstjóra sem kveðið sé á um í siðareglum félagsins.

4.      Hans Humes, stjórnandi bandarísks vogunarsjóðs, flutti erindi og svaraði fyrirspurnum á fundi Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál (RSE) í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins um viðhorf vogunarsjóða sem kröfuhafa gagnvart þrotabúum banka og opinberum aðilum. Hann lýsti mikilli undrun yfir að hér hefðu liðið sex ár án þess að uppgjöri við kröfuhafa lyki. Enginn hefði hag af slíku ástandi aðrir en þeir sem tækju tímakaup fyrir vinnu sína.