24.8.2014 21:40

Sunnudagur 24. 08. 14

Á vefsíðu Le Monde birtist í dag frásögn af því að hættuástandi hefði verið aflýst. Á vefsíðunni taka lesendur til máls og segja meðal annars að það sé gott að unnt sé að bera fram nafn jökulsins. Einn þeirra segir: „Bardar c'est simple et pour le reste pensez à Berlusconi : Bunga bunga !“  - Bardar það er einfalt og síðan er ekki annað en hugsa um Berlusconi: Bunga bunga!

Við vitum að atburðarásinni sem hófst undir Bárðarbungu er ekki lokið og sérfræðingar minna okkur á að í iðrum jarðar kann órói að vera mikill og varað lengi áður en einhver merki sjást á yfirborðinu. Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur segir:

„Kvikan er þungur vökvi og það er eðli hennar að streyma til hliðar, frekar en upp, svo framalega sem opin sprunga er fyrir hendi.  Mestar líkur eru því á gosi nú, þegar gangurinn skríður í gegnum jarðskorpuna undir söndunum norðan Dyngjujökuls og sunnan Öskju.  Ef hann gýs ekki þar, þá tekur við norðar mikið hálendi Dyngjufjalla, Kollóttudyngju og Ódáðahrauns og ólíklegt að hann komi upp á yfirborð þar.“

Fréttir í erlendum fjölmiðlum af því sem gerist hér gefa réttilega til kynna að hér viti menn ekki hvað kunni að gerast. Á hinn bóginn vekur gosið í Eyjafjallajökli svo magnaðan óhug hjá mörgum að brýnna er nú en nokkru sinni fyrr að vanda alla upplýsingamiðlun.