23.8.2014 21:10

Laugardagur 23. 08. 14

Vegna þess hve gosið í Eyjafjallajökli og áhrif þess eru enn ofarlega í huga margra um heim allan beinist meiri athygli en ella að fréttum um hugsanlegt nýtt eldgos hér á landi. Þetta má mæla á ýmsan hátt. Að frétt um rautt hættustig í lofti yfir Bárðarbungu sé mest lesin á vefsíðu BBC News segir sína sögu.

Spurning vaknar hvort kallað hafi verið: „Úlfur!  Úlfur!“ án tilefnis. Sérfræðingum ber ekki saman um hvort í raun hafi orðið nokkurt gos. Þegar fréttamaður í 18.00-fréttum ríkisútvarpsins fór í veðurstofuna hóf hann spurningu til sérfræðingsins á þennan veg: „Segðu okkur nú cirka about hvað er að gerast?“

Í Eyjafjallajökulsgosinu höfðu menn ekki gert ráð fyrir að aska yrði jafnmikill skaðvaldur og hún reyndist. Nú gefa menn út stífar viðvaranir vegna hættu af ösku í háloftununm. Jafnvægi virðist skorta.

Óhjákvæmilegt er að yfirvöld búi þannig um hnúta að allar opinberar yfirlýsingar séu gefnar að vel yfirlögðu ráði en ekki í beinum útsendingum þar sem menn eru spurðir um eitthvað sem þeir telja „cirka about“. Mikið er í húfi og margir draga ályktanir af þeim yfirlýsingum sem koma frá opinberum aðilum – þeir geta ekki hver og einn sungið með eigin nefi.