Föstudagur 22. 08. 14
Hætta er á að víðar geti soðið upp úr um helgina en við Bárðarbungu.
Fréttir frá Gaza-ströndinni í dag herma að Hamas, hryðjuverkasamtökin sem ráða þar lögum og lofum, hafi látið taka 18 Palestínumenn af lífi fyrir að starfa í þágu Ísraela.
Sjö menn voru skotnir á helsta torgi Gaza-borgar. Fréttarstofur vitna til sjónarvotta og vefsíðu Hamas. Bíða „sömu örlög annarra bráðlega,“ segir á síðunni og einnig: „Óhjákvæmilegt er að grípa til þessara ráða við núverandi aðstæður.“
Höfuð hinna dauðadæmdu voru hulin og hendur þeirra bundnar fyrir aftan bak. Svartklæddir hettumenn gengu inn á torgið og skutu fórnarlömbin fyrir augunum á þeim sem voru á leið úr mosku eftir föstudagsbænir.
Fyrr um daginn voru 11 Palestínumenn, sakaðir um samvinnu við Ísraela, aflífaðir í yfirgefinni lögreglustöð á Gaza að sögn Hamas.
Vaxandi óánægja og spenna ríkir á Gaza vegna hættunnar sem Hamas hefur kallað yfir íbúa þar með árásum á Ísrael. Flugher Ísraels hefur sprengt fólk og mannvirki í loft á Gaza, síðast þrjá háttsetta Hamasliða í gær og eru aftökurnar í dag settar í samband við fall þeirra.
Á sama tíma og fréttir um þetta berast frá Gaza eykst spenna í austurhluta Úkraínu þegar Rússar senda bílalest sem sögð er hlaðin hjálpargögnum yfir landamæri Úkraínu í óþökk stjórnvalda í Kænugarði.
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, segir að hervæðing Rússa við landamæri Úkraínu með landher og flugher sé á „hættulegu stigi“ og mikið magn hergagna sé flutt frá Rússlandi til aðskilnaðarsinna. Sakar hann Rússa um „svívirðilegt brot“ á alþjóðaskuldbindingum.