Fimmtudagur 21. 08. 14
Á Vestfjarðavefsíðunni bb.is er skýrt frá því fimmtudaginn 21. ágúst að skrímslafræðingar hafi útskrifast frá Skrímslasetrinu á Bíldudal um síðustu helgi. Í fréttinni segir:
„Keppt var í spurningakeppni um Skrímslabikarinn, þar sem strákar og stelpur öttu kappi um það hvor hópurinn hefði meiri þekkingu á skrímslum í Arnarfirði. Stelpurnar unnu bikarinn að þessu sinni en næsta sumar verður keppt um hann á ný. Spurningakeppnin fór fram fyrir utan Skrímslasetrið í steikjandi sólskini, en veðrið hefur verið einstaklega gott á Bíldudal í sumar.
Skrímslasetrið heldur utan um arfleifð í sögu landsins sem snýr að skrímslum í sjó og státar af verulega vandaðri sýningu. Á hverju ári bætist við sýninguna og í vor kom líkan af Hafmanninum í fullri stærð. Skrímslasetrið verður opið til 1. september.“
Þetta setur á Bíldudal er enn eitt dæmið um framtak einstaklinga víða um land til að auðga mannlífið. Þegar ég las fréttina rifjaðist upp fyrir mér að Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir mig og nokkra aðra í „skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins“. Gunnar Helgi er líklega eini skrímslafræðingurinn í Háskóla Íslands, hann er þó ekki útskrifaður frá Skrímslasetrinu á Bíldudal sem helgar sig skrímslum í sjó.
Þegar augljóst var að íslenskir bankar stóðu ekki undir sjálfum sér og urðu gjaldþrota var sagt að nægt hefði að telja byggingarkrana til að átta sig á að ekki væri allt með felldu í íslensku fjármála- og efnahagslífi.
Um þessar mundir má sjá 11 byggingarkrana á svæðinu frá Sjómannaskólahúsinu í Reykjavík niður að Vitastíg. Á þessum bletti borgarinnar rísa meðal annars háhýsi. Spurning er hvað þeir segja sem mæla hitann í efnahagslífi þjóða eftir byggingarkrönum.