20.8.2014 18:50

Miðvikudagur 20. 08. 14

Í dag ræddi ég við Þorkel Helgason stærðfræðing í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum um tónlistarmál í tilefni af 40 ára afmæli Kammersveitar Reykjavíkur og 40. starfsárs Sumartónleikanna í Skálholti. Þáttinn má sjá klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Þetta er fyrsti þáttur minn eftir sumarleyfi en ég verð nú með viðtöl vikulega á miðvikudögum kl. 20.00 á ÍNN. Tala ég um allt milli himins og jarðar við viðmælendur mína.

Meira jafnvægi var í umræðum um það sem er að gerast í iðrum jarðar við Bárðarbungu í dag en verið hefur undanfarna daga. Jarðfræðingar geta ekki lagt mat á annað en hvort meiri eða minni líkur séu á eldgosi. Þeir telja líkurnar greinilega meiri en minni sé miðað við hættustig og brottvísun fólks af stórum landsvæðum.

Hvar og hvernig kvikan brýtur sér leið veit enginn. Hæglega getur ástand af því tagi sem ríkt hefur undanfarna daga staðið mjög lengi líklega frekar með hléum en samfellt. Í erindi sem Ari Trausti Guðmundsson flutti í Rótarý-klúbbi Reykjavíkur í dag minnti hann okkur á að 16 ára aðdragandi hefði verið á gosinu í Eyjafjallajökli.

Breska flugfélagið British Airways hefur ákveðið að búa til nýja rás í sjónvarpskerfi véla sinna í langflugi. Á rásinni verða sýndar myndir af gæludýrum og ber hún enska heitið: Paws and Relax TV (Loppu og slökunarsjónvarp). Richard D‘Cruze forstjóri segir að margar vísindarannsóknir sýni að unnt sé að hægja á hjartslætti og minnka álag (stress) með því að horfa á gæludýramyndir. Með sýningu myndanna sé ekki aðeins unnt að stytta mönnum ferðina með að dreifa huga þeirra heldur einnig minnka kvíða þeirra sem eru flughræddir.

Útdráttur