Þriðjudagur 19. 08. 14
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri hefur tilkynnt að aðeins sé unnt að tryggja samfellu og koma í veg fyrir uppbrot á hinni metnaðarfullu vetrardagskrá rásar 1 sem á að kynna hinn 28. ágúst með því að sameina morgunbæn og orð kvöldsins sem nú eiga að heita orð dagsins í einn dagskrárlið sem fluttur verður klukkan 06.25 á morgnana. Í tilkynningu útvarpsstjóra í dag segir:
„Í þættinum verður flutt stutt hugvekja og bæn. Sameinaðir falla dagskrárliðirnir betur að nýju dagskrárskipulagi rásarinnar, en þeir verða á dagskrá kl. 6.25 rétt á undan nýjum öflugum morgunþætti, Morgunvaktinni sem hefst kl. 6.30.“
Af viðbrögðum í netheimum að dæma er augljóst að megn óánægja er með þessa ráðstöfun útvarpsstjóra og dagskrárstjóra rásar 1. Þeir hafa aðeins hlustað með öðru eyranu á það sem fram hefur komið undanfarna sólarhringa en í tilkynningunni segir:
„Starfsfólk Ríkisútvarpsins hefur lagt við hlustir og tekur mark á þessum ábendingum enda er það sameiginlegt verkefni okkar að þjóna hlustendum eins vel og kostur er. Starfsfólkið hefur því skoðað með hvaða hætti megi bregðast við þeim röddum sem vilja halda í þessa liði með einhverjum hætti um leið og haldið er áfram að gera dagskrá rásarinnar markvissari eins og áður kom fram.“
Það eru í sjálfu sér engin rök að dagskrá rásar 1 verði ómarkvissari þótt fáein orð kvöldsins séu hengd aftan við fréttir klukkan 22.00. Afstaða starfsfólksins ber enn með sér að sjónarmið þess eigi að vega meira í þessu tilliti en eingdregin tilmæli hlustenda.
Næsta óþekkt er, í seinni tíð að minnsta kosti, að útvarpshlustendur sýni efni á rás 1 þann áhuga sem birtist í viðbrögðunum við boðaðri aðför að örstuttum útvarpsþáttum. Miðað við minnkandi áhuga almennt á dagskrá rásar 1 er næsta furðulegt að ekki sé orðið við óskum þess fjölda sem nú óskar eftir að nokkurra mínútna örþáttur verði ekki skorinn úr dagskránni. Sýnir þetta að dagskráin er gerð fyrir starfsfólkið en ekki hlustendur.
Allt er þetta þeim mun einkennilegra vegna þess að árið 2007 varð Páll Magnússon, forveri Magnúsar Geirs, við óskum hlustenda og hætti við að drepa orð kvöldsins. Er engu líkara en þessi þáttur þar sem flutt er guðsorð að kvöldi dags sé fleinn í holdi þeirra sem sýsla með dagskrá rásar 1. Opinbera skýringin á nauðsyn brottfalls þáttarins er einstaklega ósannfærandi og mætti helst ætla að starfsfólkinu og útvarpsstjóra sé ekki að skapi að lýsa því í raun sem að baki býr.