16.8.2014 19:30

Laugardagur 16. 08. 14


Tvo föstudaga í röð hafa kvikmyndir reistar á ævi Sir Winstons Churchills verið sýndar í dönsku sjónvarpsstöðinni DR2 sú fyrri heitir The Gathering Storm frá 2002 og hin síðari Into the Storm frá 2009. Þær eru framleiddar af BBC-HBO.

Fyrri myndin segir frá Churchill á fjórða áratugnum þegar hann er utan ríkisstjórnar og berst fyrir andstöðu við Hitler og gegn afvopnunarstefnu bresku ríkisstjórnarinnar. Henni lýkur 3. september 1939 þegar hann verður flotamálaráðherra.

Síðari myndin segir frá Churchill frá því að hann verður forsætisráðherra 10. maí 1940 þar til hann tapar í þingkosningunum sumarið 1945.

Albert Finney leikur Churchill í fyrri myndinni en Brendan Gleeson í þeirri seinni. Báðir hafa þeir fengið verðlaun fyrir leik sinn. Vanessa Redgrave leikur Clementine. eiginkonu Churchills, í fyrri myndinni en Janet McTeer í þeirri seinni. Allt eru þetta snilldarleikarar.

Þetta eru einstaklega vel gerðar myndir og fengur að því að sjá þær hvora á eftir annarri með fáeinum dögum á milli. Efnistökin eru fagmannleg og forvitnilegt að bera saman túlkun hinna miklu leikara.

Mér er ekki ljóst hvort myndirnar hafi verið sýndar í sjónvarpi hér á landi. Sé svo ekki er full ástæða til að hvetja til sýninga á þeim.