15.8.2014 21:10

Föstudagur 15. 08. 14

Hinn 15. ágúst er frídagur í Frakklandi, minnst er himnafarar Maríu guðsmóður. Frakkar taka sér almennt ekki frí af trúarlegum ástæðum enda hefur þjóðlífið verið afhelgað, dregin hafa verið skil á milli trúarbragða og hins opinbera. Að himnafarar Maríu sé minnst á þennan hátt í Frakklandi má rekja til Lúðvíks XIII. sem helgaði Frakkland Maríu til að hann eignaðist erfingja, ríkisarfa sem síðar varð Lúðvík XIV.

Í dag var Már Guðmundsson endurskipaður seðlabankastjóri. Ég skrifaði um það á Evrópuvaktina eins og lesa má hér.

Í dag birti ríkissaksóknari Gísla Frey Valdórssyni, aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, ákæru í „lekamálinu“. Hann Birna leysti hann tafarlaust frá störfum og sagði sig frá málefnum dómstóla og saksóknara á meðan málið væri rekið. Gísli Freyr áréttaði sakleysi sitt. Spurning er hvort hælbítar Hönnu Birnu snúi sér nú að öðru.

Ásakanir í garð Hönnu Birnu hafa verið hryggjarstykkið í blaðamennsku DV frá því að Jón Bjarki Magnússon birti viðtalið við hælisleitandann Tony Omos hinn 18. nóvember 2013 til að leggja grunn að því að hann fengi að dveljast í landinu sem faðir að ófæddu barni.

Í dag birtu blaðamenn á DV yfirlýsingu vegna ágreinings meðal eigenda blaðsins. Þar segir meðal annars:

„Af samtölum við stjórnarmenn DV ehf. má ráða að fráfarandi stjórnarformaður, Þorsteinn Guðnason, hafi meðal annars fundið að því að félagið greiði málskostnað og bætur vegna málaferla á hendur einstaka blaðamanni. Ef breyting yrði þar á yrði vegið að grunngildum ritstjórnarlegs frelsis og jafnframt farið gegn nýsettum fjölmiðlalögum.“

Þórey Vilhjálmsdóttir, aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, hefur stefnt blaðamönnum á DV vegna ásakana þeirra gegn henni í „lekamálinu“ og í dag segir Gísli Freyr Valdórsson í yfirlýsingu:

„Samkvæmt rannsóknargögnum virðist grunur lögreglu byggja á framburði blaðamanns DV, sem sagði í skýrslutöku hjá lögreglu að honum hefði borist það til eyrna að aðstoðarmaður ráðherra hefði sent frá sér trúnaðargögn úr tölvupósti (vinnupósti) ráðuneytisins. Þetta er rangt enda hefur ekkert komið fram við rannsókn málsins sem styður þessa fullyrðingu blaðamannsins.“

Skiljanlegt er að blaðamennirnir hafi áhyggjur ef eigendur DV ætla ekki að greiða „málkostnað og bætur vegna málaferla á hendur einstaka blaðamanni“.