11.8.2014 21:40

Mánudagur 11. 08. 14

Danir gerðu tilraun með að senda F-16 herþotur til tveggja daga eftirlitsflugs á Grænlandi á sama tíma og króprins Danmerkur dvaldist þar með fjölskyldu sinni á dögunum. Danski herinn vildi í fyrsta sinn kanna hvort þoturnar dygðu við hinar erfiðu aðstæður á Grænlandi. Tilraunin leiddi í ljós að þoturnar er ekki unnt að nota á Grænlandi.

Upphaflega hugmyndin var að setja auka-eftirlitsbúnað í vélarnar svo að þær nýttust betur til að fylgjast með því gerðist á jörðu niðri og á hafi úti. Fallið var frá því þar sem ekki reyndist rými fyrir tækin í vélunum.

Á milli Kangerlussuaq (Syðri-Straumfjarðar) og Thule eru 1.313 kílómetrar og urðu flugmennirnir að gæta þess vel að eldsneyti vélanna dygði til að þær kæmust á milli flugvallanna. Þetta leiddi einnig til þess að ekki var talið skynsamlegt að þyngja vélarnar með nýjum tækjum.

Í frétt útvarpsins á Grænlandi segir að það hafi komið dönsku herstjórninni á óvart hve erfitt var að nýta vélarnar og þess vegna sé líklegt að F-16 vélarnar verði aldrei tíðir gestir á Grænlandi.

Danski herinn hefur notað Bombardier Challenger 604 þotur til eftirlits á Grænlandi og mun væntanlega gera áfram. Þá treystir danski herinn einnig á samstarf við þá sem stunda flug frá Akureyri til Norðaustur-Grænlands.

Enginn vafi er á að reynslan af F-16 þotunum mun auka mikilvægi Keflavíkurflugvallar í augum dönsku herstjórnarinnar þegar hún hugar að öryggi Grænlands.