8.8.2014 15:45

Föstudagur 08. 08. 14

Vangaveltur eru um hvers vegna Ísland hafi ekki verið sett á bannlista Moskvumanna þegar þeir ákváðu að stöðva innflutning á matvælum frá ESB-ríkjum, Noregi, Ástralíu og Kanada. Sendiráð Rússa á Íslandi segir það eitt að rússneska ríkisstjórnin hafi tekið ákvörðun um þennan lista. Það kann þó ekki að vera að Sergei Lavrov utanríkisráðherra hafi verið hugsað til móður sinnar og tengsla hennar við íslenskar viðskiptasendinefndir á tíma Sovétríkjanna þegar hann lagði lokahönd á listann?

Sergei Lavrov er fæddur í mars árið 1950. Faðir hans var Armeni frá Tiblísi en móðir hans rússnesk frá Georgíu. Hún vann í utanríkisviðskiptaráðuneyti Rússa og var árum saman í hópi helstu viðmælenda íslenskra viðskiptanefnda sem sömdu um sölu á íslenskum afurðum til Sovétríkjanna og kaup á olíu þaðan.

Hún kom hingað til lands og hefur áreiðanlega fært syni sínum gjafir eftir heimsóknir sínar hingað og frætt hann um land og þjóð og hve miklu skipti fyrir hann og aðra að eiga aðgang að góðum fiski frá Íslandi.

Frú Lavrova þótti einstaklega glæsileg og raunar tignarleg þegar hún birtist á fundum. Fannst Íslendingum að í henni ættu þeir hauk í horni.

Sergei Lavrov hefur verið utanríkisráðherra Rússlands frá árinu 2004. Þeir sem segja frá ævi Lavrovs nefna að hann hafi ætlað að leggja fyrir sig kjarnorkuvísindi en móðir hans hafi hvatt hann til að hefja nám í alþjóðastjórnmálum sem leiddi óhjákvæmilega til starfa í sovésku utanríkisþjónustunni að loknu námi árið 1972. Haft er á orði að móðir utanríkisráðherrans hafi setið í embætti sem gaf mikið í aðra hönd og hann hafi því alist upp við allsnægtir á sovéskan mælikvarða.