6.8.2014 22:15

Miðvikudagur 06. 08. 14

Fréttir frá Úkraínu benda til þess að Rússar kunni að senda her inn í austurhluta landsins undir því yfirskyni að þeir vilja draga úr neyð fólks eða segist bregðast við óskum Rússavina. Spurning er til hvaða ráða Vesturlönd grípa, líklegt er að þau geri ekki neitt. Ég fjallaði um þetta í pistli á Evrópuvaktinni í dag eins og lesa má hér.

Umboðsmaður alþingis hefur sent frekari spurningar til innanríkisráðherra vegna funda hennar með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu eftir að ríkissaksóknari fól lögreglunni að rannsaka leka á skjali um hælisleitanda. Umboðsmaður ritaði einnig forsætisráðherra og spurði hvort ríkisstjórnin hefði sett sér siðareglur.

Umboðsmaður fiskar eftir hvort reglur séu virtar um skráningu funda og gagna. Hann sat í rannsóknarnefnd alþingis vegna bankahrunsins en nefndin lagði áherslu á skráningu og ritun minnisblaða. Rær umboðsmaður nú á þau mið að nýju vegna „lekamálsins“ og nýtir sér það til að ýta undir aga á þessu sviði innan stjórnarráðsins.

Ritun minnisblaða og skráning fundargerða er góð regla í opinberri stjórnsýslu. Þá vill umboðsmaður fá af­rit af þeim gagna- og rann­sókn­ar­beiðnum lög­reglu sem beint var til inn­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins eft­ir að rannsóknin í þágu ríkissaksóknara hófst í fe­brú­ar sl. Jafn­framt er óskað eft­ir að upp­lýst verði hvenær ein­stök­um beiðnum var svarað af hálfu ráðuneyt­is­ins og umbeðin gögn lát­in í té. Má skilja þessa ósk á þann veg að umboðsmaður vilji vita hve víðtæk rannsókn lögreglu var og hvort ráðuneytið hafi orðið við öllum tilmælum um afhendingu gagna.