5.8.2014 19:10

Þriðjudagur 05. 08. 14

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi í Bítinu á Bylgjunni í morgun um „lekamálið“ svonefnda og sagði sé vitnað í visir.is:

„Svo út af þessari umfjöllun DV, sem mér finnst einhver sú einkennilegasta sem ég hef nokkurn tímann séð í fjölmiðli og búin er að standa hérna yfir í marga, marga mánuði, þá fara allir bara einhvern veginn yfirum [og hefja lögreglurannsókn í innanríkisráðuneytin].“


Hann sagði umfjöllun DV um málið einkennast af pólitískum áróðri. „Maður sér það bara þegar maður les þennan texta. Svo dettur mönnum í hug að verðlauna þetta. Ég velti fyrir mér stöðu fjölmiðlana, mér finnst hún miklu áhugaverðari en staða ráðuneytisins í þessu máli.“

Undir þessi orð Brynjars skal tekið. Blaðamennirnir Jón Bjarki Magnússon og Jóhann Páll Jóhannsson hafa haldið á þessu máli undir ritstjórn Reynis Traustasonar á þann veg að fyllsta ástæða er til að skoða þátt þeirra sérstaklega þegar litið er á framvindu þess síðan 20. nóvember 2013 en þá stóðu samtökin No Borders fyrir mótmælaaðgerð við innanríkisráðuneytið til stuðnings Tony Omos.

Hinn 18. nóvember 2013 birti Jón Bjarki viðtal í DV við Evelyn Glory Joseph, hælisleitanda frá Nígeríu sem átti von á barni í janúar 2014 og sagði hælisleitandann, Nígeríumanninn Tony Omos föður þess. Hann fór þá huldu höfði til að komast hjá brottvísun. Með viðtalinu var ætlunin að styrkja rétt hans til dvalar í landinu með því að upplýsa um faðerni hins ófædda barns.

Í framhaldi af viðtali Jóns Bjarka og vegna mótmælanna við innanríkisráðuneytið var tekið saman skjal í innanríkisráðuneytinu um stöðu Tonys Omos. Honum var vísað úr landi en No Borders samtökin sem berjast í þágu hælisleitenda gerðu minnisblaðið að höfuðatriði gagnrýnni sinnar á ráðuneytið strax í nóvember. Enginn sem kynnir sér skrif blaðamanna DV og það sem segir á Facebook-síðu No Borders getur ályktað annað en þar sé mikill samhljómur á milli. Var öllum efasemdum um að Osmos væri barnsfaðir Evelyn Glory Joseph mótmælt af miklum þunga.

Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað hvort DV hafi staðið að kæru á hendur innanríkisráðuneytinu til ríkissaksóknara eða lögreglu vegna málsins.