Sunnudagur 03. 08. 14
Í dag skrifaði ég um „lekamálið“ á Evrópuvaktina eins og lesa má hér. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra ræddi málið við Sigurjón Magnús Egilsson í þætti hans á Bylgjunni. Nokkrar umræður urðu á Facebook í framhaldi af viðtalinu. Þar sagði Reynir Ingibjartsson á þræði hjá Eiði Guðnasyni: „Málið væri ekki á borði Ríkissaksóknara ef DV og Reynir Traustason hefðu ekki tekið málið upp.“ Af þessu tilefni spyr ég: Ber að skilja þetta þannig að DV hafi sent kæru til ríkissaksóknara?
Orð Reynis er ekki unnt að skilja á annan hátt en þann að DV, ritstjóri eða blaðamenn, hafi staðið að kæru til ríkissaksóknara. Sé málum þannig háttað er um nýjan flöt á afskiptum DV að ræða. Þetta skýrir hvers vegna blaðið hefur lagt svo ríka áherslu á að knýja fram ákæru í málinu. Heiftin í garð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur stafar af því að blaðið vill að kæran beri árangur í höndum ríkissaksóknara.
Svo virtist úr Fljótshlíðinni í dag sem sandrok væri á ströndinni við Landeyjahöfn. Þar eru nú fleiri bílar en nokkru sinni vegna þjóðhátíðarinnar í Eyjum. Vonandi hefur sandurinn ekki valdið neinu tjóni á þeim.