Laugardagur 02. 08. 14
Í stað þess að bíða eftir niðurstöðu ríkissaksóknara í „lekamálinu“ kallaði fréttastofa ríkisútvarpsins á Valtý Sigurðsson, fyrrverandi ríkissaksóknara, í viðtal í hádegisfréttir og hann sagði í lok þess:
„Sem komið er eru það alveg hreint síðustu forvöð [fyrir innanríkisráðherra] að víkja sæti tímabundið, að mínu mati.“
Það hentaði greinilega ekki markmiði fréttastofunnar að óska eftir skýringu á hinum tilvitnuðu orðum. Vill Valtýr að ráðherrann víki á meðan ríkissaksóknari kemst að niðurstöðu um hvað gera skuli í málinu? Ríkissaksóknari hefur fengið gögn þess í hendur frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Um sjálfstæði ákæruvaldsins sagði Valtýr: „[A]ð mínu mati er alveg nóg að rannsakandinn hafi það á tilfinningunni að það sé verið að horfa yfir öxlina á honum og stýra rannsókninni og gagnrýna seinagang“. Áhugi innanríkisráðherra á skjótri niðurstöðu í máli er smáræði miðað við annan þrýsting sem kann að myndast vegna umræðna og ástands í þjóðfélaginu.
Hanna Birna hefur hrundið í framkvæmd nýjum lögum um sýslumenn og lögreglustjóra. Hún vinnur að löggjöf sem snertir ákæruvaldið. Þar hefur reynst snúið að ná sátt um niðurstöðu. Þá hefur hún látið semja frumvarp um millidómstig. Fréttir herma að innan hæstaréttar séu einhverjir ósáttir yfir að hafa ekki verið valdir til að smíða frumvarpið. Fréttir herma einnig að innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu séu einhverjir löglærðir yfirmenn reiðir eftir að Sigríður Björk Guðjónsdóttir var skipuð lögreglustjóri.
Við úrlausn slíkra mála reynir á þolrif innanríkisráðherra og við þetta allt bætist síðan sakamálarannsókn sem beinist að innanríkisráðuneytinu. Hanna Birna hefur enn og aftur tekið af skarið um að hún ætli ekki að víkja úr embætti sínu, hún njóti trausts til setu í því. Traustið sækir hún til meirihluta á alþingi í krafti þingræðisreglunnar.
Almenn, opinber umræða um „lekamálið“ hefur verið mikil. Umboðsmaður alþingis hefur fengið svör innanríkisráðherra. Telji ríkissaksóknari sig eða lögreglu hafa orðið fyrir þrýstingi í málinu hlýtur afstaða til þess að birtast í ákvörðun saksóknarans. Eftir að „lekamálinu“ var breytt í sakamál verður að ljúka því á grundvelli laga um slík mál.
Að segja að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hafi lagt stein í götu þess að „lekamálið“ sé leitt til lykta stenst einfaldlega ekki.