1.8.2014 21:10

Föstudagur 01. 08. 14

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra svaraði í dag spurningum sem umboðsmaður alþingis lagði fyrir hana vegna undirróðursskrifa í DV undir ritstjórn Reynis Traustasonar sem hefur lagt sig fram um að draga upp hina verstu mynd af ráðherranum. Að ráðherrann hafi reynt að bregða fæti fyrir rannsókn sem sneri að innanríkisráðuneytinu á ekki við rök að styðjast. Á hinn bóginn hefur hún rætt á fjórum fundum við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu síðan í febrúar þegar rannsóknin hófst að fyrirmælum ríkissaksóknara auk þess sem hún hefur rætt við hann í síma. Lögregla hefur lokið rannsókninni en ríkissaksóknari hefur ekki enn skýrt frá niðurstöðu sinni.

Að ímynda sér að innanríkisráðherra hafi beitt valdi sínu til að hafa áhrif á þessa rannsókn er fráleitt. Í bréfi sínu segir Hanna Birna:

„Ástæða er til að taka fram að í ráðuneytinu er að finna mikið af trúnaðargögnum um einkamálefni fjölda fólks, sem koma umræddri rannsókn á máli hælisleitandans ekkert við. Það er mikilvægt fyrir mig og ráðuneytið að gætt sé almennra trúnaðarskyldna og almannahagsmuna þegar yfir stendur rannsókn lögreglu á tilteknu máli og lögregla krefst aðgangs að upplýsingum innan ráðuneytisins án þess að vita fyrirfram hvort í þeim kunni að vera eitthvað sem skiptir máli fyrir rannsókn hennar.

Ég sem og allir starfsmenn ráðuneytisins höfum þrátt fyrir þetta lagt okkur fram um að verða við öllum óskum lögreglu um gögn og upplýsingar, þó að ljóst sé að þessar óskir hafi í ákveðnum tilvikum verið mjög víðtækar. Þannig hefur engri rannsóknarbeiðni lögreglunnar verið hafnað og hefur henni meðal annars verið heimilað að skoða farsímanotkun einstakra starfsmanna, sem og tölvupóst, borðsímanotkun og aðgangskort allra starfsmanna og var ég þar ekki undanskilin. Þá hefur lögreglunni verið heimilaður aðgangur að málaskrá ráðuneytisins, sem inniheldur þúsundir einstaklingsmála.“

Af þessum orðum má ráða að rannsókn lögreglu hefur verið víðtækari en áður hefur fram komið. Spurning er hvort umboðsmaður leggur mat á hvort nauðsynlegt hafi verið að ganga jafn langt við gagnaöflun og þarna er lýst.

Bréf innanríkisráðherra sýnir að aðdróttanir í DV um að Hanna Birna Kristjánsdóttir eða embættismenn ráðuneytis hennar hafi ætlað að hindra framgang lögreglurannsóknarinnar eiga ekki við nein rök að styðjast.  Ráðherranum var hins vegar annt um rannsókninni lyki sem fyrst og raskaði ekki öðrum málum innan ráðuneytsins.