31.1.2014 23:40

Föstudagur 31. 01. 14

Ný könnun sem Maskína gerði fyrir Já! Ísland samtök ESB-aðildarsinna sýnir að meirihluti þjóðarinnar vill að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Kjósendur allra flokka eru fylgjandi slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Alls vilja 67,5%  að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram, 32,5% eru því andvíg.

Könnunin var gerð dagana 10. til 20. janúar og tóku 1.078 þátt.

Þetta sýnir að verði aðildarumsóknin dregin til baka eins og stjórnarflokkarnir hljóta að gera verður ekki farið af stað að nýju án þess að það verði borið undir þjóðina. Þegar tillagan um aðildarumsókn var á döfinni hafnaði meirihluti alþingis tillögu um að bera hana undir þjóðina. Það var talið fráleitt af ESB-aðildarsinnum.

Hið einkennilega er að nú telja ESB-aðildarsinnar skoðun meirihlutans um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðnanna í samræmi við stefnu sína!