Miðvikudagur 29. 01. 14
Í kvöld birtist viðtal mitt við Margréti Friðriksdóttur, skólameistara Menntaskólans í Kópavogi, á ÍNN. Hún gefur kost á sér í fyrsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna sveitarstjórnakosninganna í Kópavogi.
Björt framtíð hefur sem stjórnmálaafl leitast við að tala í gátum. Nú leiðir Guðmundur Steingrímsson, formaður flokksins, hóp þingmanna sem flytur þingsályktunartillögu um um afsökunarbeiðni og greiðslu skaðabóta til iðkenda Falun Gong. Er þar vísað til atburða þegar forseti Kína kom hingað til lands vorið 2002 og beitt var markvissum aðgerðum til að halda iðkendum Falun Gong andstæðingum forsetans í skefjum.
Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars að iðkun á Falun Gong „byggist ekki á persónudýrkun“ og:
„ Markmið Falun Gong er að finna innri visku og frið. Ástundun á Falun Gong felst í að rækta innri mann í samræmi við grundvallargildin sannleika, kærleika og þolinmæði. Þess má geta að stofnandi Falun Gong, Li Hongzhi, hefur fjórum sinnum verið tilnefndur til friðarverðlauna Nóbels.“
Oft rugla menn saman Falun Gong og qi gong. Li Hongzhi hefur sagt skilið við qi gong og ítrekað lagt áherslu á að Falun Gong sé annars eðlis. Um heim allan fjölgar iðkendum qi gong en vegur Falun Gong eykst ekki að sama skapi.
Hinn 10. maí 1999 birti bandaríska tímaritið Time viðtal við Li Hongzhi þar sem hann sagði að „mannleg siðalögmál hefðu ekki lengur gildi“ og áréttaði að Falun Gong væri annað en qi gong. Hann sagði einnig að verur frá öðrum hnöttum spilltu manninum. Hann skaut sér undan spurningum um hann sjálfan og sagði: „Ég vil ekki ræða um sjálfan mig á æðra stigi. Fólk mundi ekki skilja það.“
Að taka fram í kynningu á Falun Gong að þar sé ekki um persónudýrkun að ræða er sérkennilegt eins og flest sem kemur frá Bjartri framtíð á stjórnmálavettvangi. Vekur í sjálfu sér ekki undrun að texti á borð við þetta komi frá flokknum, hitt er skrýtið að formenn annarra stjórnmálaflokka skuli vera meðal flutningsmanna tillögunnar.
Víst er að Li Hongzhi fær aldrei friðarverðlaun Nóbels sama hve oft hann er tilnefndur.