Mánudagur 27. 01. 14
Í gær skrifaði ég stutta hugleiðingu á Evrópuvaktina um blaðið Reykjavík vikublað og hvernig það hefur breyst undir ritstjórn Ingimars Karls Helgasonar. Má lesa þann texta hér. Ingimar Karl brást illa við þessum skrifum mínum eins og sjá má hér . Lykilsetningin hjá honum er þessi: „Það er napurt að gamall valdakall skuli senda þá kveðju á afmæli lítillar stelpu að pabbi hennar missi vinnuna.“
Þegar einn kunningja minna las þessa setningu Ingimars Karls varð honum á orði:
„Ég held að þessi setning hljóti að fara í sögubækurnar sem (lang) besta dæmið um enska orðatiltækið ‚playing the world's saddest song on the world's smallest violin‘.“
Við þetta er í raun engu að bæta.
Hvergi hef ég nefnt annað varðandi Ingimar Karl en skrif hans á opinberum vettvangi. Ég hef aldrei vikið einu orði að honum sjálfum og því síður fjölskyldu hans. Hann kýs hins vegar að vega að mér persónulega vegna aldurs míns. Ég skil satt að segja ekki hvernig sá árafjöldi snertir þetta mál og því síður störfin sem ég hef tekið að mér. Hvað er Ingimar Karl að gefa í skyn með þessu? Að þeir sem eru á mínum aldri og með mína starfsreynslu megi ekki taka til máls á opinberum vettvangi? Að aldur minn og fyrri störf banni mér að gagnrýna ritstjórn hans á Reykjavík vikublaði?