26.1.2014 23:55

Sunnudagur 26. 01. 14

Borgarleikhúsið sýnir nú Hamlet eftir William Shakespeare í nýrri útgáfu Jóns Atla Jónassonar og Jóns Páls Eyjólfssonar. Nýja útgáfan gengur upp þótt sleppa hefði mátt afbökun á textanum með óþörfum innskotum úr götumáli samtímans eða á orðum sem eru á skjön við stað og stund. Stjörnuleikur Ólafs Darra Ólafssonar, að öllum öðrum leikurum ólöstuðum, gerir sýninguna eftirminnilega. Umgjörðin er góð fyrir utan herbergi sem dregið er fram eins og innskot í nútímann. Þetta er misheppnað eins og innskotinn úr nútímamáli.  Til hvers er þetta gert? Kannski er tilgangurinn að færa verkið nær áhorfendum, fara á lægra plan. Það sæmir hvorki áhorfendum né verkinu.

Sigmundur Davíðs Gunnlaugsson forsætisráðherra segir í samtali við Eyjuna í dag:

„Í áratugi hefur engin ríkisstjórn lagt til atlögu við verðtryggingu lána. Verðtryggingin var nauðsynlegt neyðarúrræði, og raunar bráðabirgðaúrræði […]

Verðtryggingin er eins og fúi í stoðum íslensks efnahags- og fjármálalífs og menn verða að vanda sig við að losna við hann, og treysta stoðirnar þannig að ekki hljótist af skaði, jafnvel þar sem síst skyldi.“

Á sínum tíma lýsti ég í bók um Ólaf Jóhannesson forsætisráðherra og forvera Sigmundar Davíðs á formannsstóli í Framsóknarflokknum hvernig Ólafur vann að setningu Ólafslaganna svonefndu sem lögfestu verðtrygginguna vorið 1978. Þá var ég  skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu.

Frægt var þegar Ólafur sagðist hafa samið lögin við eldhúsborðið heima hjá sér á Aragötunni. Hann stillti síðan samstarfsmönnum í stjórninni úr Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi upp við vegg og sagði þá verða að samþykkja frumvarp sitt annars liðaðist stjórnin í sundur.

Ég man ekki eftir að rætt hefði verið um Ólafslögin eða ákvæði í þeim sem bráðabirgðaúrræði en útfærsla verðtryggingarinnar hefur þróast í tímans rás þótt ekki hafi verið horfið frá henni sem úrræði og verður örugglega ekki gert að þessu sinni.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hlýtur að haga ákvörðunum sínum um þetta efni í samræmi við það sem brýnast er um þessar mundir: að afnema gjaldeyrishöftin.