Föstudagur 24. 01. 14
Hollenska ríkisstjórnin boðaði til ráðstefnu í vikunni og vildi fá ríkisstjórnir annarra ESB-landa til að samþykkja að skerða vald framkvæmdastjórnar ESB. Stjórnin vill að settar verði skýrar reglur um valdmörkin milli ríkisstjórna og framkvæmdastjórnar ESB. Krafan verði að áður en ný framkvæmdastjórn ESB tekur til starfa 1. nóvember 2014 verði henni kynntar hin nýja verkaskipting.
Eftir ráðstefnunna lýsti utanríkisráðherra Hollands bjartsýni. Stuðningsmönnum tillagna um minna vald framkvæmdastjórnar ESB fjölgar af því að ríkisstjórnir vilja bæði minnka völd Brusselmanna og ýta undir þá skoðun almennings í löndum sínum að hann sé ekki orðinn með öllu áhrifalaus.
Kosið verður til ESB-þingsins í vor. Margir óttast að áhugi kjósenda verði lítill og þeir fáu sem koma á kjörstað geri það til að velja flokka sem eru á móti evrunni og samrunaþróuninni innan ESB.
Fyrir utan þennan almenna ótta í ESB ríkjunum glíma hollenskir ráðamenn við það innan eigin lands að þar krefst sífellt stærri hópur kjósenda að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina að ESB. Hollenskir ráðamenn vilja forðast þessa þjóðaratkvæðagreiðslu í lengstu lög og telja gagnrýni á framkvæmdastjórn ESB vænlegasta úrræðið til þess.
Dagskrá ríkssjónvarpsins er enn í kvöld lögð undir handboltaleik þar sem Danir kepptu. Danir eru á sigurbraut þó er leikurinn hvorki sýndur á DR 1 né DR 2. Hér fór öll kvölddagskráin úr skorðum vegna handboltaleiks. Var greinilegt að stjórnendur, þátttakendur og áhorfendur í þættinum Útsvar höfðu mátt þola leiðinlaga bið eftir þættinum og náði Útsvar sér ekki á flug í kvöld – kannski var það einnig vegna leiðinlegra spurninga.