19.1.2014 21:50

Sunnudagur 19. 01. 14

Björn Bragi Arnarson, íþróttafréttamaður ríkisútvarpsins, varð sér til skammar með óvarlegu orðbragði með vísan til nasista í frásögn af handboltaleik Íslendinga og Austurríkismanna. Hann baðst afsökunar en í Austurríki íhuga forráðamenn handboltasamtaka að leita réttar síns. Hér hefur oftar en einu sinni verið vakið máls á að grípi menn til þess í rökræðum að líkja viðmælanda sínum við nasista sé umræðunum í raun lokið.

Eru þeir sem koma fram í ríkisútvarpinu svo fávísir um söguna og tilfinningar sem tengjast henni að þeir telji sig mega láta allt flakka? Eða allt megi afsaka vegna hita leiksins og góðs árangurs íslenska liðsins? Sé svo eru austurrísku handboltasamtökin annarrar skoðunar. Það er umhugsunarefni fyrir stjórnendur ríkisútvarpsins hvernig taka skuli á málini, þetta er ekki einkamál íþróttafréttamanns heldur metnaðarmál fyrir ríkisútvarp, aðila að Eurovision.

Í Frakklandi greip ríkisstjórnin til þess ráðs á dögunum að banna Dieudonné uppistandara að fara með texta sem talinn var hafa að geyma gyðingahatur og gera lítið úr helförinni. Knattspyrnumaður sem gerði handarhreyfingu sem túlkuð var sem naistakveðja sætti miklu ámæli.

Eftir að ég skrifaði ofangreint sá ég á mbl.is  að Bjarni Guðmundsson, starfandi útvarpsstjóri RÚV, hefði sent handknattleikssamböndum Austurríkis og Íslands bréf vegna hinna ósæmilegu ummæla. Bjarni biðst afsökunar á ummælunum og segir að gripið hafi verið til viðeigandi ráðstafana. Í bréfinu til Austurríska handknattleikssambandsins, kemur fram að ummælin hafi verið særandi og ósmekkleg. Bjarni segir að málið sé litið afar alvarlegum augum og að það verði tekið á því á viðunandi máta. 

Spurður út í það hver þessi viðeigandi viðbrögð væru, sem nefnd eru í bréfunum, svaraði Bjarni á mbl.is: „Á fundi var farið yfir málið með viðeigandi hætti, Björn Bragi ítrekaði síðan afsökunarbeiðni sína til áhorfenda, beggja landsliða og austurríkismanna sérstaklega.“

Dugar þetta?