Laugardagur 18. 01. 14
Svanur Kristjánsson prófessor hefur oft reynst haukur í horni fyrir fjölmiðlamenn og aðra sem hafa einkennilegan eða jafnvel vondan málstað að verja. Reynir Traustason, ritstjóri á DV, fær Svan sér til hjálpar í aðförinni að Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Á dv.is má lesa í dag:
„Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins bera ráðherrar ábyrgð gagnvart þjóðþinginu. Að óreyndu skal því treyst að forseti Alþingis, sómamaðurinn Einar K. Guðfinnsson, sjái til þess að starf þingsins fari fram með eðlilegum hætti og þingmenn njóti starfsfriðar - ekki síst lausir við allan yfirgang ráðherra.“ Þetta segir Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, í ummælum við frétt DV um það að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hafi beitt sér gegn því að rætt væri um trúnaðarbrest innanríkisráðuneytisins á Alþingi, meðal annars með því að skamma Birgittu Jónsdóttur, þingmann Pírata, fyrir að spyrja um málið og reyna að sannfæra Katrínu Jakobsdóttur, þingmann og formann Vinstri grænna, um að hætta við fyrirspurn sína.“
Það er dæmigert fyrir dylgjustjórnmálamanninn Birgittu Jónsdóttur sem slær um sig á alþjóðavettvangi með vörn fyrir uppljóstrara og aðra sem leka fréttum í fjölmiðla að kvarta undan því við Reyni Traustason að Hanna Birna hafi tekið hana á beinið. Þarna er Birgitta ekki að verja leka heldur að krefjast upplýsinga um uppljóstrara til að ná sér niðri á honum. Að ráðaherra finni að þingmanni eða hvetji hann til að beina kröftum sínum að öðru en árásum á ráðherrann er að sjálfsögðu ekki einsdæmi í þingsögunni – eða heldur Reynir Traustason það?
Orðin sem Svanur Kristjánsson lætur falla eru almennir frasar sem ekki fá neina vigt þótt hann nefni stjórnarskrána og sé með vinarhót í garð þingforseta. Menn þurfa ekki að vera prófessorar í stjórnmálafræði til að tala á þennan hátt, hitt er furðulegra að slíkur prófessor skuli ekki hafa meira til málanna að leggja úr því að hann kýs að blanda sér í aðförina að Hönnu Birnu. Þetta sýnir að hið eina sem vakir fyrir Svani er að gleðja Reyni Traustason og gera honum kleift að bæta nafni prófessorsins við rununa sem hann notar í framhaldssögunni gegn Hönnu Birnu.