13.1.2014 21:40

Mánudagur 13. 01. 14

Viðræður Helga Seljans og Gunnars Braga Sveinssonar í Kastljósi kvöldsins báru með sér ógöngur umræðnanna um ESB-aðildarviðræðurnar á opinberum, innlendum vettvangi. Þær einkenndust af orðhengilshætti. Öllum er ljóst að ríkisstjórnin sem situr fram til 2017, sé rétt á málum hennar haldið, mun ekki beita sér fyrir framhaldi viðræðnanna. Í stað þess að ræða þá staðreynd og afleiðingar hennar reyndi Helgi Seljan að koma Gunnari Braga í vanda og rugla áhorfendur í ríminu.

Af hverju leggja fréttamenn ríkisútvarpsins sig meira fram í þessu máli en nokkru öðru við að rifja upp hvað Gunnar Bragi sagði í stjórnarandstöðu? Af hverju hafa þeir aldrei gengið á Árna Pál Árnason og spurt hann um kosningaloforð hans frá apríl 2009 um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að ESB á árinu 2011?

Þegar ekið er um þjóðvegina eftir stórhríð er augljóst að tré skapa skafla og síðan hættubletti á vegum. Vegagerðin hlýtur að huga að því að trjám sé ekki plantað svo nærri vegum að þau valdi vandræðum af þessu tagi svo að ekki sé minnst á hættuna af því að stór tré brotni og falli á vegi. Víða um lönd er það helsta hættan eftir stórviðri sem þó eru oft smámunir miðað við það sem hér verður.