12.1.2014 22:41

Sunnudagur 12. 01. 14

Hlöðver Þorsteinsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Einar Farestveit í Borgartúni 28, segir á visir.is að þrátt fyrir að upplyfting hafi orðið á útliti Borgartúnsins frá þvi sem var áður með nýju skipulagi, sé gatan jafn „ópraktísk“ eða „kaótísk“ og frekast geti verið. Hún sé bæði illa hönnuð fyrir þá starfsemi sem þrífst í Borgartúni auk þess sem öryggi vegfarenda sé ekki nægilega tryggt. breytingarnar hafi fækkað bílastæðum á svæðinu en fyrir sé mikill skortur á bílastæðum.

Hlöðver segir nýja ljósastaura ekki tryggja öryggi gangandi vegfaranda nægilega og mikil hætta geti skapast þegar bílar aki yfir gangstéttir inn á bílastæði.

Hlöðver segir skort á bílastæðum í Borgartúni vera vandamál og að borgin hafi aukið þann vanda með framkvæmdunum þar sem 30 bílastæði hafi nú þegar tapast á framkvæmdunum og 20 til viðbótar muni tapast þegar framkvæmdir halda áfram í átt að Snorrabraut.

Þessi ummæli framkvæmdastjóra við Borgartún stangast á við það sem Fréttablaðið hafði eftir Bjarna Brynjólfssyni, upplýsingafulltrúa Reykjavíkurborgar, á forsíðu sinni á dögunum að hina eina sem gerðist í Borgartúninu væri að hægja mundi á umferð bíla.

Áður hafði starfsmaður borgarinnar með skipulagsvald sagt að í Borgartúni mundi óvild borgarinnar í garð einkabílsins birtast. Það er hárrétt eins og allir geta staðfest sem eiga erindi í götuna. Þar hefur meirihluti Jóns Gnarrs og félaga reist sér „ópraktískan“ og „kaótískan“ minnisvarða gegn einkabílnum.