Þriðjudagur 07. 01. 14
Helgi Teitur Helgason, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs Landsbanka Íslands, gerir athugasemd við þá fullyrðingu mína hér á síðunni í gær um að menn geti fengið allt að 90% húsnæðislán í bankanum. Mér er ljúft að hafa það sem sannara reynist en Helgi Teitur segir að Landsbankinn bjóði „viðskiptavinum sínum íbúðalán, grunnlán, uppað 70% af verðmæti fasteignar“. Til viðbótar þessu eigi viðskiptavinir „kost á að fá aukalán, allt að 15% af verðmæti eignarinnar, séu til öll skilyrði til staðar þ.m.t. greiðslugeta“. Samsetning þessara tveggja íbúðalána geti „þannig hæst leitt til 85% veðsetningarhlutfalls fasteignarinnar“ en ekki 90% eins og ég held fram.
Vonbrigði Helga Teits vegna þess að ég hafi ranglega nefnt töluna 90% eru smámunir í samanburði við þann sársauka sem það olli að ég segði Landsbankann minna æ meira á Íbúðalánasjóð. „Framtíðarsýn okkar í Landsbankanum er að bankinn okkar sé til fyrirmyndar og í forystu. Hann sé fyrsti kostur á fjármálamarkaði og með trygga og ánægða viðskiptavini sem skapar gagnkvæman ávinning af langtíma viðskiptasambandi milli bankans og viðskiptavina hans,“ segir Helgi Teitur. Eftir að hafa farið orðum um starfsemi Íbúðalánasjóðs og viðhorf hans til viðskiptavina sinna segir framkvæmdastjóri einstaklingssviðs Landsbankans það „sannast sagna, gríðarlega ósanngjarnt að jafna saman Íbúðalánasjóði og Landsbankanum með nokkrum hætti“.
Þegar ég sagði að Landsbankinn minnti æ meira á Íbúðalánasjóð átti ég við 90% lánin sem sá sjóður veitti á sínum tíma og risti samanburður minn ekki dýpra. Fyrir mér vakti hvorki að gera á hlut Landsbankans né Íbúðalánasjóðs heldur vekja máls á efnahags- og fjármálaþróun sem eðlilegt er að ræða.
Ég fagna því að Helgi Teitur skuli hafa séð ástæðu til að benda mér á það sem betur mátti fara hjá mér. Það sýnir að í Landsbankanum vilja menn standa vörð um orðspor sitt.