Laugardagur 04. 01. 14
Í leiðara Fréttablaðsins í dag segir Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri að þess séu engin fordæmi að haldin sé þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að Evrópusambandinu eða aðildarviðræður áður en þær hefjast eða meðan á þeim stendur.
Þetta er ekki rétt hjá ritstjóranum gengið var til þjóðaratkvæðagreiðslu í örríkinu San Marínó sunnudaginn 20. október 2013 um hvort hefja ætti aðildarviðræður við ESB. Þátttaka var svo lítil að niðurstaðan reyndist marklaus, örlítill meirihluti vildi senda inn umsókn.
Í San Marínó er evran gjaldmiðill með leyfi leiðtogaráðs ESB þótt landið sé utan ESB. Vegna ágreinings um aðild að ESB var ákveðið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort senda ætti inn umsókn.
Í atkvæðagreiðslunni tóku aðeins 20,22% kjósenda þátt en hlutfallið þurfti að vera 32% svo að kosningin væri bindandi.
Niðurstaðan var að 50,28% sögðu já en 49,72% nei. Þótt já-liðið fengi 0,56 stig umfram nei-liðið unnu hinir síðarnefndu vegna þess hve fáir íbúar í San Marínó sáu ástæðu til að fara á kjörstað.
Þessi stutta frétt sem birtist á Evrópuvaktinni 21. október 2013 sýnir að ritstjóri Fréttablaðsins fer vísvitandi með rangt mál eða hann fylgist ekki nógu vel með því sem gerist þegar ESB á í hlut.