Fimmtudagur 02. 01. 14
Enn er sótt að 365. Í kvöldfréttum sjónvarps ríkisins var sagt frá áformum tveggja athafnamanna Sigmars Vilhjálmssonar og Jóhannesar Ásbjörnssonar um að opna tvær sjónvarpsstöðvar á næstu vikum. Nýju stöðvarnar verða reknar fyrir auglýsingatekjur í gömlu húsakynnum Stöðvar tvö á Krókhálsi. Var sagt að þar væri unnið hörðum höndum að því að innrétta myndver, klippiherbergi og annað sem þyrfti til að reka sjónvarpsstöð.
Hér á landi seldist mikið af alls konar búnaði fyrir jólin sem gerir fólki kleift að njóta áskriftarsjónvarps án þess að kaupa efni frá 365, þar ber Netflix hæst. Fjölbreytnin þar er sögð óþrjótandi og gjaldið aðeins brot af því sem greitt er fyrir áskriftina hjá 365.
Samhliða því sem þetta gerist á sjónvarpsmarkaðnum blasir við öllum að þróun Fréttablaðsins stöðvaðist og fraus eftir að það hætti að þjóna hagsmunum eigendanna í sakamáli og fyrirtæki þeirra urðu síðan gjaldþrota.
Um nokkurt skeið hefur 365 verið til sölu. Jóni Ásgeiri og félögum hefur ekki tekist að finna kaupanda eða kaupendur. Líkur á að þeir finnist minnka enn við fréttirnar af tveimur nýjum stöðvum sem á að reka fyrir auglýsingafé.
Fréttablaðinu var sem fríblaði stefnt gegn áskriftarblöðum. Jóni Ásgeiri hefur ekki tekist að gera út af við Morgunblaðið. Nú bendir allt til þess að frí-sjónvarpsstöðvar geri út af við fjölmiðlaveldi Jóns Ásgeirs.