30.6.2013 21:00

Sunnudagur 30. 06. 13

Í dag birti Evrópuvaktin lauslega þýðingu á ályktun þings Evrópuráðsins um að gera verði skil á milli pólitískrar ábyrgðar og refsiábyrgðar stjórnmálamanna. Í ályktuninni sem má lesa hér er hörð gagnrýni á framgöngu meirihluta alþingis þegar hann ákvað að stefna Geir H. Haarde fyrir landsdóm.

Skömm þeirra sem stóðu að ákærunni að Geir H. Haarde er nú komin á spjöld mannréttindasögu Evrópuráðsins. Málið er blettur fyrir íslenskt stjórnmálalíf og er í raun ótrúlegt að meirihluti þingmanna skuli hafa gengið erinda Steingríms J. Sigfússonar, formanns VG, í þessu máli. Hann sagðist hafa greitt atkvæði með ákærunni „með sorg í hjarta“ en lét Þuríði Backman, flokkssystur sína og samþingmann fá NA-kjördæmi, verða sér enn frekar til skammar á Evrópuráðsþinginu í Strassborg með séráliti við álitið að baki tillögunni sem þingið samþykkti föstudaginn 28. júní.

Sagt var frá málinu í sjónvarpsfréttum ríkisins í kvöld. Hið furðulega við þann fréttaflutning var að birtar voru myndir frá Brussel af byggingum Evrópusambandsins undir textunum. Varla er fréttastofan svo illa að sér að hún geri ekki mun á Evrópusambandinu og Evrópuráðinu? ESB er með höfuðstöðvar í Brussel, Belgíu. Evrópuráðið hefur aðsetur í Strassborg í Frakklandi.

Ekki tók síðan betra við í fréttatímanum þegar birt var viðtal við Martin Schulz, forseta ESB- þingsins, og ummæli hans um lýðræðisríki þýdd á þann veg að hann talaði um „lýðveldi“. Lýðræðisríki geta vissulega verið lýðveldi en þau geta einnig verið konungdæmi, lýðveldi á íslensku er notað um stjórnkerfi þar sem þjóðhöfðinginn er forseti. Frakkar tala til dæmis um fimmta lýðveldið sem Charles de Gaulle stofnaði árið 1958.