27.6.2013 21:20

Fimmtudagur 27. 06. 13

Lokadagur í París að þessu sinni. Mannfjöldi mikill á götum í gær og í dag enda hófust sumarútsölur í gær. Ég lét mér nægja að fylgjast með atganginum úr fjarlægð.

Fór með strætisvagni sem ók yfir Concorde-torg. Það hlýtur að taka á taugarnar að þurfa að brjótast yfir torgið oft á dag enda lét bílstjórinn í sér heyra með því að þeyta flautuna. Sé maður að flýta sér í París felst áhætta í að taka strætisvagn. Hitt sparar tíma að taka jarðlest.

Varð vitni að þegar strætóbílstjóri flautaði á leigubíl á götuhorni. Leigubílstjóranum var svo misboðið að hann rauk út úr bíl sínum og steytti hnefann við bílstjóraglugga strætisvagnsins um leið og hann hrópaði ókvæðisorð.